Vopnafjarðarirkju bárust gjafir

29.10 2018 - Mánudagur

Á vef Hofssóknar er frá því greint að á vordögum hafi Vopnafjarðarkirkju borist tvær gjafir. Um er að ræða annars vegar gjöf Kiwanisklúbbsins Öskju og Svanborgar Víglundsdóttur sem gáfu kirkjunni snúningsbekk undir kistur. Mælifell og Bílar & vélar smíðuðu gripinn og Svanborg saumaði utanum hann. Snúningsbekkur er verkfæri sem auðveldar að miklu leyti þá þungu raun margra sem þurfa að bera ástvin sinn út úr kirkjunni til grafar. Allt sem léttir undir á slíkum stundum er sannkölluð himnasending, segir sr. Þuríður Björg í skrifum sínum.

 

Hin gjöfin sem málið varðar er íslenski fáninn sem Svanborg Víglundsdóttir afhenti kirkjunni sem kistuskreyting og stendur öllum til boða að nýta sér þá fallegu skreytingu. Hvor gjöf hefur nú þegar verið nýtt og þakklæti aðstandenda leyndi sér ekki.

 

Er kirkjan full þakklætis og gleði yfir því góða fólki sem gefur af sér á þennan hátt. Náungakærleikurinn leynir sér ekki en slíkar gjafir eru gjafir til samfélagsins fyrst og fremst og kirkjan varðveitir þær. Takk fyrir okkur góða fólk, skrifar sr. Þuríður Björg að lokum og er fulll ástæða að taka undir með henni.
Tungumál


Skipta um leturstærð


LeitFlýtileiðir