Ábending frá Persónuvernd vegna skólasamfélagsins

31.10 2018 - Miðvikudagur

Persónuvernd vill af gefnu tilefni vekja athygli á því að stofnuninni hefur borist fjöldi ábendinga bæði frá foreldrum barna og starfsmönnum skóla um breytta starfshætti í skólum vegna nýrra persónuverndarlaga. Svo virðist sem misskilnings gæti víða í skólasamfélaginu um til hvaða aðgerða þurfi að grípa til þess að skólastarf sé í samræmi við ný persónuverndarlög. Er um langan texta að ræða en tíðindamanni þótti tilhlýðilegt að líta á það sem snýr einkum að myndatökum innan skólaveggja til birtingar á opinberum vettvangi.

 

Myndatökur

Persónuvernd kveðst hafa fengið vitneskju um að fjöldi skóla sé að undirbúa eða hafi þegar lokið við að afla samþykkis foreldra fyrir myndatökum af börnum. Persónuvernd fagnar því að sú framkvæmd sé hafin enda er það í samræmi við persónuverndarlög og tilmæli stofnunarinnar. Persónuvernd telur þó brýnt að koma eftirfarandi atriðum á framfæri.

 

  • Skólinn þarf að veita hinum skráða (hér foreldrum/forsjáraðilum barns) fullnægjandi fræðslu um vinnsluna, svo sem um tilgang hennar, viðtakendur upplýsinganna og fleira áður en samþykki er veitt. Að öðrum kosti telst fræðslan ekki í samræmi við persónuverndarlög

 

  • Gæta þarf meðalhófs þegar kemur að myndatökum. Réttur barna til friðhelgi einkalífs er tryggður í barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, stjórnarskránni og persónuverndarlögum og því mikilvægt að foreldrar, starfsmenn skóla og aðrir sem koma að starfi með börnum séu meðvitaðir um réttindi barna til persónuverndar.

 

  • IMG_1437.JPGVið mat á því hvort afla þurfi samþykkis fyrir myndatöku þarf að meta hvert tilvik sjálfstætt og í heild sinni út frá gildi umfjöllunarefnisins, eðli upplýsinganna og stöðu þess sem í hlut á og því samhengi sem myndefnið er sett í. Telja má að fremur rúmt svigrúm sé til birtingar þjóðlífs- og hversdagsmynda með almenna skírskotun án samþykkis viðkomandi einstaklinga, þ.e. mynda af opinberum viðburðum eða kringumstæðum á almannafæri þar sem tiltekinn einstaklingur er ekki aðalmyndefnið. Verður þannig almennt ekki gerð athugasemd við að það séu birtar myndir af opnum viðburðum á vegum skóla og félaga sem ekki sýna neinar aðstæður viðkvæms eðlis. Það sama getur átt við um bekkjarmyndir árganga. Það er hlutverk skólans að meta hvað teljist til opinna viðburða á hans vegum, en það mat getur þó sætt endurskoðun Persónuverndar berist henni kvörtun frá einstaklingi vegna myndbirtingar.

 

  • Í einhverjum tilvikum hefur foreldrum og forráðamönnum verið bönnuð myndataka á viðburðum á vegum skólans. Það er mat Persónuverndar að skólar, sem opinberar stofnanir, geti ekki lagt bann við því að einstaklingar taki ljósmyndir af börnum sínum enda skal það áréttað að persónuverndarlög gilda ekki um meðferð einstaklings á persónuupplýsingum sem eingöngu varða einkahagi hans eða fjölskyldu hans eða eru einvörðungu ætlaðar til persónulegra nota.

 

Ofangreint svarar mörgum þeirra spurninga sem foreldrar/forsjáraðilar hafa velt vöngum yfir eftir gildistöku hinna nýju persónuverndarlaga.
Tungumál


Skipta um leturstærð


LeitFlýtileiðir