Fregnir af HB Granda hf

08.11 2018 - Fimmtudagur

Fjölmiðlar hafa frá því greint að HB Grandi hf. hafi ákveðið að hætta rekstri bolfiskvinnslu á Vopnafirði. Ákvörðunin var tilkynnt á starfsmannafundi þriðjudaginn 30. október sl. Fregnir af uppsögnum hafa fylgt í kjölfarið sem eðlilega hafa komið á umróti í nærsamfélaginu. Með nýjum eigendum mátti alltaf búast við breytingum og sjálfsagt sér ekki fyrir endann á þeim. Á hinn bóginn hafa fregnir verið misvísandi og sá félagið sig knúið til að senda frá sér yfirlýsingu og er hana að finna hér að neðan.

 

Vegna frétta af uppsögnum starfsmanna HB Granda á Vopnafirði vill félagið taka eftirfarandi fram:

 

HB Grandi hefur í mörg ár rekið öfluga uppsjávarvinnslu á Vopnafirði þar sem unnið er á vöktum allan sólarhringinn á meðan vertíð stendur. Fastráðnir starfsmenn uppsjávarfrystihúsins á Vopnafirði eru eftir uppsagnir 60 og hafa verið 60-65 í gegnum árin. Tíminn á milli vertíða hefur verið nýttur í ýmiskonar verkefni. Árið 2016 var tekin ákvörðun um að byggja upp bolfiskvinnslu á Vopnafirði til að starfrækja á milli vertíða og hófst vinnsla í henni eftir sjómannaverkfallið í mars 2017. Rekstur bolfiskvinnslu hefur allmennt ekki gengið sem skyldi og hefur því verið ákveðið að endurskipuleggja starfssemi á Vopnafirði á milli vertíða.

 

Engin áform eru um að draga úr starfsemi HB Granda á Vopnafirði en þar er í dag rekið öflugt uppsjávarfrystihús og fiskimjölsverksmiðja. Áfram er stefnt að því að hafa starfsemi á Vopnafirði á milli vertíða en verið er að skoða hvernig best er að haga því, en engin ákvörðun liggur fyrir í þeim efnum.

Myndin er fengin á heimasíðu félagsins.
Tungumál


Skipta um leturstærð


LeitFlýtileiðir