Að endingu mun stytta upp

15.11 2018 - Fimmtudagur

Uppstyttur hafa fáar verið í nóvembermánuði en útlit fyrir veðrabrigði á morgun en því fer fjarri að tíðin muni minna á vetur því gera má ráð fyrir tveggja stiga hitatölu á laugardag og hlýindi ríkja næstu daga á eftir. Í föstu formi hefði ofankoma mánaðarins þýtt snjóskafla svo fráleitt mikla að leita þyrfti til sögukunnugra þegar vetur var vetur með snjó frá hausti fram á vor. Tíðindamaður rölti með myndavélina sl. sunnudag og fylgir afraksturinn fréttinni.

 

Sjálfsagt hafa áður komið tímabil sem þetta en á því leikur ekki vafi að veðrið hefur tekið miklum breytingum þegar horft er til reikistjörnunnar jarðar. Hafa þeir sem gerst þekkja greint svo frá að öfgar eins og heimurinn horfir fram á t.a.m. í Kaliforníu þessar vikurnar muni algengari verða. Gæðunum er misskipt og þótt okkur þyki nóg um regn sl. vikna má leiða að líkum að íbúar Kaliforníu hefðu glaðir þegið allt votviðrið og meira til. Ekki langt í norðri er Washingtonfylki, þekkt votviðrasvæði í BNA.

 

IMG_8133.JPGManneskjan hefur aldrei verið upplýstari en nú. Engu að síður hefur aldrei verið gengið freklegar á auðlindir jarðar. 02. ágúst 2017 var skilgreindur sem dagur þolmarka jarðar og á vef Umhverfisstofnunar þennan dag sagði: Það þyrfti næstum heila jörð í viðbót til að mæta því neyslustigi sem er í heiminum árið 2017. Í ár var 02. ágúst skilgreindur sem dagur þolmarka jarðarinnar, sá dagur ársins sem við höfum fullnýtt auðlindir jarðarinnar á sjálfbæran hátt fyrir árið 2017. Það þýðir að alla daga ársins sem eftir eru göngum við á auðlindir og umhverfi með ósjálfbærum hætti.

 

Kominn út fyrir efnið líklega - hvorki í fyrsta né hinsta sinn - en ábyrgðin er okkar er byggjum þessa storð. Framtíðin er óráðin en nútíðin er staðreynd og regnið, þokan, vindurinn og myrkrið áþreifanlegt sama hvort sem okkur líkar betur eða verr.
Tungumál


Skipta um leturstærð


LeitFlýtileiðir