Blítt veður - breytinga að vænta

26.11 2018 - Mánudagur

Veðurblíða hefur ríkt á Íslandi sl. daga en sú hæð sem tók sér bólfestu yfir landinu miðju hefur stýrt veðurfarinu. Það gerist líklega ekki oft að allt landið njóti samskonar veðurs dögum saman. Hin góða tíð með vindstillu og heiðríkju sólarhringum saman er kannski ekki fordæmalaus en heyrir vafalítið til undantekninga í landi þar sem vinds gætir flesta daga. Logn um nokkurra daga skeið er öllum kærkomið. Samkvæmt Veðurstofunni er breytinga að vænta, ofankomu í formi regns er spáð á miðvikudag en snjókomu fimmtu- og föstudag.

 

Tíðindamaður var á rölti í veðurblíðunni í gær og tók nokkrar myndir sem fréttinni fylgja.

 

Veðurhorfur á landinu næstu daga skv. Veðurstofu Íslands.

 

Mánu- og þriðjudagur:

Austan 5-13 og stöku skúrir eða él sunnantil á landinu í dag, hiti 0 til 5 stig. Hægari og bjart veður norðan heiða, frost 0 til 10 stig.

Austan 5-13 m/s á morgun, en 13-18 syðst. Skúrir eða él SA-lands og undir Eyjafjöllum, annars þurrt.

 

Á miðvikudag:

Vaxandi norðaustanátt, 13-20 m/s síðdegis, en hvassari um kvöldið. Slydda eða snjókoma N- og A-lands, rigning á Austfjörðum, en annars þurrviðri. Hlýnar í veðri og hiti 0 til 7 stig undir kvöld, hlýjast syðst.

 

Á fimmtudag:

Allhvöss eða hvöss norðan- og norðaustanátt og snjókoma á N- og A-landi, en annars úrkomulítið og kólnandi veður.

 

Á föstudag:

Stíf norðanátt og snjókoma eða él á N-verðu landinu, en úrkomulaust syðra. Frost um allt land.

 

Á laugardag og sunnudag:

Vestlæg átt, él og kalt í veðri, en úrkomulítið fyrir austan.

 

 

Hugleiðingar veðurfræðings

 

Þurrt að kalla suðvestanlands á morgun og það bætir aðeins í vind með suðurströndinni, annars svipað veður áfram:

En á miðvikudag er útlit fyrir vaxandi norðaustanátt með snjókomu um landið norðanvert, en slyddu eða rigningu á Austfjörðum og Suðausturlandi. Og á fimmtudag má búast við snjókomu víða um land, þó einkum norðan- og austanlands.
Tungumál


Skipta um leturstærð


LeitFlýtileiðir