Bílar og vélar meðal framúrskarandi fyrirtækja

28.11 2018 - Miðvikudagur

Bílar og vélar ehf. á Vopnafirði er meðal 27 fyrirtækja á Austurlandi sem eru á lista Creditinfo yfir framúrskarandi fyrirtæki á Íslandi. Var listinn kynntur um miðjan mánuðinn en B&V hefur um árabil tilheyrt þessum hópi fyrirtækja. Hefur Creditinfo um 9 ára skeið birt lista yfir framúrskarandi fyrirtæki á Íslandi, þau voru alls 857 árið 2017 og sem fyrr greinir 27 með heimilsfestu á Austurlandi. Er gleðilegt til þess að vita að Vopnfirðingar skuli eiga fyrirtæki í þessum ágæta hópi  en það eru skilyrði sem uppfylla verður og engan veginn sjálfgefið að taka sæti meðal framúrskarandi fyrirtækja.

 

Hin framúrskarandi fyrirtæki eru af öllum stærðum, langstærst fyrirtækja á Austurlandi er Alcoa Fjarðaál, fjórða stærsta fyrirtæki á Íslandi skv. listanum. Tvö austfirsk fyrirtæki hafa verið á listanum frá fyrstu birtingu hans 2010, ÞS verktakar á Egilsstöðum og G. Skúlason vélaverkstæði á Neskaupstað.

 

Creditinfo setur eftirfarandi skilyrði til að komast á listann:

 

-Fyrirtækið er í lánshlæfiflokki 1 – 3

-Ársreikningi skilað lögum skv. fyrir 1. september

-Fyrirtækið er virkt skv. skilgreiningu Crediinfo

-Framkvæmdastjóri skráður í fyrirtækjaskrá RSK

-Rekstrartekjur að lágmarki 50 milljónir króna 2017 (nýtt skilyrði)

-Rekstrarhagnaður (EBIT > 0) síðustu 3 rekstrarár

-Jákvæð ársniðurstaða síðustu 3 rekstarár

-Eiginfjárhlutfall hærra en 20% síðustu 3 rekstrarár

-Eignir yfir 100 milljónir króna 2017, 90 m.kr. 2016 og 80 m.kr. 2015 (breytt skilyrði)

 

Hvað Bílar og vélar varðar er fyrirtækið númer 771 að stærð þeirra 857 sem Creditinfo hefur tilgreint, no. 188 innan stærðarflokksins lítið. Eignir þess námu samtals 134 milljónir króna 2017, eigið fé um 80 m.kr., eigið fjárhlutfallið 58% (eigið fé/eignir) og rekstrarhagnaður 10 m.kr. 2017.
Tungumál


Skipta um leturstærð


LeitFlýtileiðir