Fullveldishátíð Vopnfirðinga – 100 ára fullveldi fagnað

03.12 2018 - Mánudagur

Þann 1. desember sl. fagnaði íslensk þjóð að liðin eru 100 ár frá því að Ísland varð frjálst og fullvalda ríki með gildistöku sambandslaganna 1. desember 1918. Líklega má staðhæfa að það hafi verið merkasti áfanginn í sjálfstæðisbaráttunni sem þá hafði staðið í nær eina öld. Árið sem brátt er að baki ber einkunnarorðin Fögnum saman 100 ára fullveldi! Skipaði Alþingi afmælisnefnd sem m.a. var falið að hvetja skóla til þess að beina sjónum að þeim merku tímamótum sem urðu í íslensku samfélagi með sambandslögunum árið 1918. Vopnfirðingar minntust tímamótanna með glæsilegri dagskrá í Vopnafjarðarskóla.

 

Ákalli afmælisnefndar höfðu Vopnfirðingar svarað með verðugum hætti en skv. samþykkt sveitarstjórnar þann 28. júní sl. kom í hlut Vopnafjarðarskóla og menningarmálanefndar sveitarfélagsins að annast það mikilsverða verkefni að minnast tímamótanna. Auk hefðbundins skólastarfs unnu nemendur ýmis konar verkefni í tengslum við fullveldið og var afrakstur þeirrar vinnu gestum til sýnis á fullveldisdaginn. Mun það eflaust hafa komið mörgum á óvart afraksturinn og ljóst að vel var um verkstjórnina haldið. Er full ástæða til að óska hlutaðeigendum öllum til hamingju með glæsilegt framtakið.

 

Dagskrá hátíðar var svofelld:

 

  • Setning hátíðar, Aðalbjörn Björnsson skólastjóri

 

  • Ávarp: Hera Marín Einarsdóttir, formaður nemendaráðs, flytur hugvekju. Höfundur Bjartur Aðalbjörnsson.

 

  • Kórlestur: Nemendur 4.-5. bekkja kórlesa ljóðið Ísland er land þitt.

 

  • Úrslit í ljóðasamkeppni nemenda skólans sem hófst á degi íslenskrar tungu 16. nóvember. Þrenn verðlaun eru veitt á hverju stigi, yngsta stigi, miðstigi og elsta stigi

 

  • Kórlestur: Nemendur  6. bekkjar kórlesa ljóðið Ísland farsælda frón.

 

  • Karlakórinn undir stjórn Stephen Yates syngur lögin Ísland farsælda frón, Hver á sér fegra föðurland og Ísland

 

  • Skólakórinn undir stjórn Stephen Yates syngur lögin Dalvísa og Land míns föður.

 

  • Karlakórinn og skólakórinn syngja saman Lofsönginn, þjóðsöng Íslendinga.

 

  • Sýning á ýmsum verkefnum sem unnin hafa verið vegna 100 ára afmælis sjálfstæðis Íslendinga.

 

  • Boðið upp á kaffi, kakó og brauð í sal skólans og í stofum og göngum skólans að formlegri dagskrá lokinni

 

IMG_8389.JPGÍ setningarræðu sinni greindi Aðalbjörn frá að skólanum hefði verið falið það mikilsverða verkefni að minnast tímamótanna með verðungum hætti með að markmiði að nemendur lærðu meira um land okkar og sögu þjóðar. Í haust var unnin mikil verkefnavinna meðal kennara og nemenda, söngæfingar með þátttöku allra nemenda skólans og samvinnuverkefni tengd 100 ára sjálfstæði og 1918.

 

Hera Marín Einarsdóttir formaður nemendaráðs flutti ávarp sem Bjartur Aðalbjörnsson hafði samið. Með leyfi höfundar fylgir ávarpið í viðhengi neðan fréttar. Fór Hera Marín vel með textann þar sem segir í upphafi: Íslands 1000 ár, Íslands sjálfstæðu 100 ár, Vopnafjarðar viðburðaríku 100 ár.

 

Fjörðurinn geymir sálir sem hlógu og grétu í skjóli Krossavíkurfjalla,tár Vesturfara sem horfðu á sjóndeildarhringinn kyngja Tanganum í hinsta sinn. Tár þeirra sem upplifðu sjálfstæðið annarsstaðar.

 

Yfir Vopnafirði svífa friðsælir hugir allra þeirra sem dormuðu í grænu gili við bros sólarinnar á hlýjum sumardögum. Vopnafjörður í 100 ár geymir stundir ástfangra para sem bundu loforð undir blessun stjörnutjaldsins í ágúst. …“

 

Síðan tók við kórlestur nemenda og úrslit í ljóðasamkeppni nemenda kynnt af Bjarti sem las auk heldur hvert verðlaunaljóð. Vopnafjörður er sannarlega ekki á flæðiskeri með ungskáldin öll. Karlakór Vopnafjarðar söng 3 ættjarðarljóð og skólakórinn, allir nemendur skólans, tvö. Saman sungu kórarnir Lofsönginn og þótti hljóma einkar vel. Að lokinni formlegri dagskrá bauðst gestum að skoða nemendasýninguna og þáðu samhliða súkkulað/kaffi og hvers kyns kökur er Einherji lagði til með framlagi hollvina félagsins.

 

Fór ekki á milli mála að gestir nutu þess sem í boði var og gáfu sér góðan tíma til að virða það sem í boði var með bolla í annarri hönd og góðmeti í hinni. 100 ára fullveldishátíð Vopnfirðinga hafði heppnast eins vel og hægt var að láta sig dreyma um hlutaðeigandi til mikils sóma. Þessa dags verður lengi minnst með björtum hug og hlýju hjarta.

Meðfylgjandi er myndafjöld er málið varðar.

Fullveldi Íslands í 100 ár - ávarp 011218.pdf
Tungumál


Skipta um leturstærð


LeitFlýtileiðir