Fyrsti í aðventu

05.12 2018 - Miðvikudagur

Síðastliðinn sunndag var fyrsti sunnudagur í aðventu sem er staðfesting þess að innan 4ra sunnudaga eru komin jól. Þess er minnst um land allt og um heim allan raunar að við höfum sett miðið á hátíð ljóss og friðar. Aðventa kemur úr latínu, Adventus - „koman“ eða „sá sem kemur“. Er aðventan í Kristni fjórir síðustu sunnudagarnir fyrir jóladag. Hefð er komin á að tendrað er á ljósum jólatrésins við Kaupvang að þessu tilefni en fyrr um daginn var messa í Vopnafjarðarkirkju og opið hús á Hótel Tanga í framhaldi af henni.

 

Í messu dagsins var kveikt á fyrsta aðventukertinu sem nefnist spádómakertið og greindi sr. Þuríður Björg kirkjugestum, ungum sem eldri, frá heiti þeirra. Hin 3 nefnast Betlehemskertið, þar er athyglinni beint að þorpinu sem Jesús fæddist í; þriðja kertið nefnist hirðakertið en snauðum og ómenntuðum fjárhirðum voru sögð tíðindin góðu á undan öllum öðrum; fjórða kertið nefnist síðan englakertið og minnir okkur á þá sem báru mannheimi fregnirnar.

 

Að messu aflokinni bauðst íbúum að þiggja súkkulaði, smákökur og síld á Hótel Tanga. Það var nokkur hópur sem þáði gott boð en það var auðvitað missir þeirra sem það létu ógert því allt miðaði að því sama, allt var þar til fyrrimyndar.

 

Athöfnin við Kaupvang hófst stundvíslega kl. 17 með ávarpi Þórs sveitarstjóra, hans fyrsta í þessu sambandi og mæltist honum vel. Með leyfi Þórs birtist ávarpið hans hér að neðan. Í beinu framhaldi af ávarpi sveitarstjóra voru ljós jólatrésins tendruð, hefði mátt gefa sér ögn meiri tíma og telja niður áður en kveikt var á ljósunum. Það verður gert næst, kannski. Karlakórinn söng 3 jólalög undir stjórn leiðtoga síns Stephen Yates en kórfélagar hafa gjarnan á orði að söngur á þessum tímamótum flokkist undir áhættuatriði. Ástæðan er að sjálfsögðu veðrið, að þessu sinni gekk allt vel og söngurinn þótti hljóma með ágætum.

 

IMG_8562.JPGSveinar þeir sem allir væntu létu bíða eftir sér en það var reisn yfir komu þeirra; risavaxinn bíll björgunarsveitarinnar baðaður rauðum ljósum með kerru eina mikla í eftirdragi ók óhikað inn á túnblettinn skammt sunnan trés. Úr lokaðri kerrunni stukku tveir jólasveinar og var fagnað vel. Heilsuðu sveinar viðstöddum hressir og kátir nýkomnir til byggða og hófu að ganga skælbrosandi í kringum jólatréð hönd í hönd ásamt glöðum hópnum. Sungið var við raust Göngum við í kringum, Bráðum koma blessuð jólin, Jólasveinar ganga um gólf og fleiri söngvar hljómuðu svo undir tók í Krossavíkurfjöllum.

 

Ávarp Þórs:

 

Nú fer í hönd dimmasti tími ársins þegar sólin er lægst á lofti. En nú rennur líka upp hátíðlegasti tími ársins þegar við skreytum húsin okkar og lýsum upp skammdegið með jólaljósum, og nú erum við saman komin hér til að taka í gagnið þetta stóra og fallega sígræna tré sem minnir okkur á eilífðina - og lýsa það upp í anda hins fagra og sanna.

 

Aðventan er dásamlegur tími sem einkennist af eftirvæntingu og hátíðleika, og því að jólin eru að koma - en ekki alveg komin enn. Stundum er líka talað um jólaföstu, enda gerðu sumir það að þeir föstuðu í aðdraganda jólanna, og örugglega einhverjir enn - og ugglaust væri margt vitlausara en að taka það upp til eftirbreytni. Gæta aðhalds og nægjusemi þessar fáu vikur og búa sig þannig undir veisluborð jólanna. 

 

Ekki síst af því að núna í ár eru svolítið sérstök jól, svokölluð Stóru-Brandajól þar sem margir frídagar renna saman. Það þýðir að við fáum  gott tækifæri til að eyða tíma með fjölskyldu og ástvinum - nú og kynnast nýju fólki. Ég vil því hvetja ykkur til að nýta þennan tíma sérstaklega vel til að hvílast frá amstri hversdagsins og njóta samverunnar. Því að þar er falinn hinn mikli fjársjóður sem skiptir mestu máli þegar uppi er staðið. Ekki endilega gjafapakkar og veislumatur - þó að það sé ómissandi, heldur tilurð fallegra minninga sem geta lifað ævina á enda.

 

Gleðilega aðventu kæru Vopnfirðingar og til hamingju með þetta fallega tré.
Tungumál


Skipta um leturstærð


LeitFlýtileiðir