Rithöfundalest(ur) á Vopnafirði laugardaginn 08. desember

07.12 2018 - Föstudagur

Árviss rithöfundalest fer um Austurland dagana 06. - 08. desember. Er síðasta viðkoma lestarinnar á Vopnafirði á morgun, laugardaginn áttunda í félagsheimilinu Miklagarði kl. 20:30. Um er að ræða samstarf Skriðuklausturs, Skaftfells, Ungm.fél. Egils Rauða og menningarmálanefndar Vopnafjarðar. Hefur samstarfið verið við lýði um árabil og farsælt skilað á Austurland mörgum af bestu rithöfundum þjóðarinnar. Á ferð að þessu sinni verða fimm höfundar með nýjustu verk sín: Einar Kárason með Stormfugla, Gerður Kristný með ljóðabókina Sálumessu, Benný Sif með Grímu og Jólasveinarannsóknina, Kristborg Bóel með 261 dagur, Stefán Bogi Sveinsson með ljóðabókina Ópus og Steinunn Ásmundsdóttir, með Manneskjusögu og ljóðabókina Áratök tímans.

 

Aðeins um höfunda og bækur þeirra.

 

Einar Kárason - Stormfuglar

Stormfuglar er áhrifamikil saga um örvæntingarfulla baráttu íslenskra sjómanna við miskunnarlaus náttúruöfl. Á miðjum vetri heldur síðutogarinn Máfurinn á karfaveiðar vestur undir Nýfundnalandi. Um borð eru þrjátíu og tveir menn. Þeir fylla skipið í mokveiði en í þann mund sem þeir búast til heimferðar brestur á aftakaveður; sjórinn er drápskaldur og togarinn hleður á sig ísingu í nístandi frosti og ofsaroki.

 

Gerður Kritsný - Sálumessa

Þú háðir

dóm yfir heimi

sem aldrei

hélt skildi yfir þér

Sálumessa flytur bæn þeirra sem lifa um að sál þess látna megi bjargast. Í ljóðabálki Gerðar Kristnýjar er sungin messa yfir konu sem féll fyrir eigin hendi svo þjáning hennar og líf fái ekki að gleymast.

 

Kristborg Bóel Steindórsdóttir - 261 dagur

Í bókinni 261 dagur rekur Kristborg 261 dag í lífi sínu og átta dögum betur; byrjar söguna síðla árs 2015, átta dögum áður en hún fer í fóstureyðingu og skilur við sambýlismann sinn og barnsföður sama daginn, og síðan 261 dag sem hún er að glíma við sorg og lamandi depurð. Eins og hún lýsir bókinni er engu logið og engu bætt við og ekkert dregið undan.

 

Stefán Bogi

„Ég er fyrir löngu búinn að komast að því að ég þrífst ekki án þess að skapa eitthvað,“ segir Héraðsbúinn Stefán Bogi Sveinsson, sem fagnar nú útgáfu sinnar annarrar ljóðabókar sem ber heitið Ópus. „Ljóðið eru hentugt form því það er svo frjálst og gerir ekki mjög miklar kröfur til höfundarins þannig séð. Ef þú hefur eitthvað að segja getur þú gripið hugsunina eða tilfinninguna og komið henni snöggt á blað.“

 

Benný Sif Ísleifsdóttir – Gríma og Jólasveinarannsóknin með Elínu Elísabetu Einarsdóttur

 

Benný Sif hlaut nýræktarstyrk Miðstöðvar íslenskra bókmennta fyrir bók sína Gríma, sem fjallar um hlutskipti sjómannskvenna á fimmta og sjötta áratug síðustu aldar. Í bókinni veltir hún fyrir sér meðal annars hvernig það hafi verið að bíða og reka heimili í landi á meðan. Gríma er fyrsta skáldsaga hennar, og hlaut hún nýræktarstyrk Miðstöðvar íslenskra bókmennta vorið 2018.

Jólasveinarannsóknin. Dagana þrettán fyrir jól sefur Baldur álíka lítið og gamlir afar. Hann er nefilega andvaka af spenningi yfir fjallabræðrunum þrettán og hreinlega að missa sig af tilhlökkun.

 

Steinunn Ásmundsdóttir - Manneskjusaga og Áratök tímans

Höfundur segir svo frá Manneskusögu: „Þetta er fyrst og fremst saga um geysilega þöggun og skilningsleysi, vangetu til að lifa þvísem tíðarandinn taldi vera normalt líf og enn frekar um vangetu samfélags þess tíma til að hjálpa skaðaðri manneskju“.

Áratök tímans

Eins og titill bókarinn ber með sér rær höfundur á mið tímans og hugleiðir hvað hefur sterkust tök á honum og hans lífi. Bókin er þrískipt, í fysta kafla er uppvaxtarárum lýst, þá taka við ferðalög á ókunnar slópir og loks heimkoman, að festa rætur.

Sem fyrr segir hefst dagskráin kl. 20:30 í Miklagarði laugardagskvöldið 08.12. nk. og er miðaverð í hóf stillt eða 1.500 krónur, 1.000 kr. krakka og eldri borgara. Er áhugafólk um bókmenntir hvatt til að mæta og njóta samvista við þessa úrvalshöfunda kvöldstund eina.
Tungumál


Skipta um leturstærð


LeitFlýtileiðir