Bókakynning, ánægjuleg kvöldstund

10.12 2018 - Mánudagur

Rithöfundalestin átti viðkomu á Vopnafirði að kvöldi laugardagsins áttunda sl. svo greint var frá fyrir helgi að myndi verða. Úr lestinni stigu rithöfundarnir Stefán Bogi Sveinsson, Kristborg Bóel Steindórsdóttir, Benný Sif Ísleifsdóttir, Gerður Kristný og Einar Kárason. Það var nokkur hópur sem kaus að halda til móts við aðkomufólk og hlýða á það sem það hafði að segja og ekki bar á öðru en fólk hafi átt ánægjulega kvöldstund í minni sal Miklagarðs.

 

Austfirðingar áttu stundina fyrir hlé og kom í hlut Stefáns Boga að vera fyrstur á mælendaskrá. Að þessu sinni var höfundur einn á ferð en við kynningu ljóðabókar hans Ópus þann 17. nóvember sl. voru tónlistarmennirnir Ómar Guðjónsson og Jónas Sigurðusson með höfundi er las bókina í heild sinni við undirleik tvímenninganna. Bókinni fylgir geisladiskur og lék Stefán eitt ljóð af diskinum þar sem undirleikurinn hljómaði og var um magnaðan flutning að ræða. Kristborg Bóel greindi frá tilurð bókar sinnar 261 dagur, erfiður skilnaður og leið hennar út úr erfiðleikunum. Kristborg er einlæg í skrifum sínum og skrifar ekki undir rós, hlutirnir eru sagðir eins og þeir koma fyrir.

 

Benný Sif er Eskfirðingur að upplagi en býr nú syðra. Var hún til Vopnafjarðar komin með tvö ritverk, skáldsöguna Gríma og barnabókina Jólasveinarannsóknin. Gríma er söguleg skáldsaga sem greinir frá örlögum kvenna í íslensku sjárvarþorpi um og eftir miðja tuttugustu öld. Fyrir bókina fékk Benný Sif Nýræktarstyrk Miðstöðvar íslenskra bókmennta í vor en bókin er hennar fyrsta skáldsaga, vel að verki staðið. Jólasveinarannsóknin er kynnt sem barnabók en miðað við viðbrögð tilheyrenda sem allir voru fullorðnir er ljóst að bókin á fullt erindi til allra aldurshópa. Er skemmst frá því að segja að fólk skemmti sér konunglega við lestur höfundar.

 

Gerður Kristný er eitt víðlestnasta samtíðarskáld þjóðarinnar og hefur til margra viðurkenninga unnið. Að þessu sinni sendir hún frá sér ljóðabókina Sálumessa. Sálumessa flytur bæn þeirra sem lifa um að sál þess látna megi bjargast. Í ljóðabálkinum er sungin messa yfir konu sem féll fyrir eigin hendi svo þjáningar hennar og líf fái ekki að gleymast. Las Gerður bálkinn í heild sinni, magnaðan texta en um ljóðagerð Gerðar Kristnýjar hefur verið skrifað: Meitlaðar, kaldranalegar myndir sem vísa langt út fyrir sig, tálgaður texti sem býr yfir djúpum undirtexta sem margfaldar áhrifamáttinn þótt yfirborðstextinn standi traustum fótum einn og sér.IMG_8655.JPG

 

Einar Kárason fékk það verðuga hlutverk að ljúka kvöldinu með bók sína Stormfuglar. Kynnir kvölds sagði það með ráðum gert að staðsetja Einar síðasta í hópi rithöfunda, enda ef það er einhver sem kann sögu að segja er það Einar Kárason. Frásagnargáfan er Einari í blóð borin og það er ekki af tilviljun að eiga Einar síðastan á málændaskrá bókmenntakynningar þessa árs. Stormfuglar segir átakanlega sögu þar sem íslenskir sjómenn heyja örvæntingafulla baráttu við miskunnarlaus náttúruöfl. Birtist sagan ljóslifandi í frásögn Einars sem átti síðan eftir að segja dásamlega sögu af Vopnafjarðarheimsókn sinni fyrir nokkrum áratugum síðan er hann tók þátt í menningarviðburði hér ásamt m.a. Jónasi Árnasyni. Voru þeir tveir miðpunktur sögunnar og skemmtu gestir sér dável yfir frásögninni og hafði Einar enn á ný sannað að fáum ferst það betur að segja sögu – í rituðu sem töluðu máli.
Tungumál


Skipta um leturstærð


LeitFlýtileiðir