Aðventuhátíð í Vopnafjarðarkirkju

12.12 2018 - Miðvikudagur

Aðventuhátíð var haldin í Vopnafjarðarkirkju síðastliðinn sunnudag, annan sunnudag í aðventu. Var allvel mætt og munar eflaust nokkru að margir koma að dagskrá aðventuhátíðar en breytir ekki að stund sem þessi er einkar hátíðleg. Það er alltaf ánægjulegt að njóta samvista við börn og unglinga, framlag þeirra var afgerandi í athöfninni. Þannig söng barnakórinn jólalög, hljómaði söngur þeirra fagurlega og nemendur úr tónlistarskólanum léku á hljóðfæri undir stjórn Stephens. Stýrði Stephen samspili þeirra af stakri snilld. Jólasaga sr. Þuríðar er varðaði undirbúning jólanna var ágætis áminning til okkar í neyslusamfélagi samtímans.

 

Auk ungviðisins var þáttur kirkjukórsins stór og er tíðindamanni til efs að kórinn hafi betur sungið. Nú hefur sá sem þetta ritar áður farið fögrum orðum um kórinn, má vísa til skrifa um aðventuhátíð sl. árs, en gott heldur áfram að batna. Sum laganna reyndu á allar raddir kórsins. Var jafnvægið og samhljómurinn til fyrirmyndar og krafturinn þegar því var að skipta magnaður. Söngurinn göfgar, glæðir guðlegan neista í sál. Kirkjugestir voru vel með á nótunum og tóku vel undir í Við kveikjum einu kerti á og Guðs kristni í heimi en lok þess lags fyllti söngurinn hvern krók og kima kirkjunnar við Kolbeinsgötuna – öllu tilkomumeiri endir messu hefur líklega ekki heyrst hér áður. 
Tungumál


Skipta um leturstærð


LeitFlýtileiðir