Aðventukvöld í Hofskirkju

21.12 2018 - Föstudagur

Aðventukvöld í Hofskirkju var haldið sl. þriðjudag og var eins og þau fyrri notaleg kvöldstund fyrir þann góða hóp fólks er lagði leið sína í litlu kirkjuna. Veður skömmu fyrir viðburð gaf ekki tilefni til að fólk færi úr húsi, bálhvass vindur grenjandi rigning, en smám saman dró úr hvort tveggja vindi og regni. Karlakór Vopnafjarðar er í aðalhlutverki á þessum aðventukvöldum meðan kirkjukórinn fær frí. Sami kórstjóri stýrir þeim báðum sem kunnugt er, söng karlakórinn jólasöngva og -lög,létt lög í bland við hátíðleg.

 

Auk kórsöngsins söng Guðný Alma Ó helga nótt og gerði það vel, Örn Björnsson flutti hugleiðingu, falleg og einlæg. Er hugleiðingu Arnar að finna hér neðan fréttar [sbr. Aðventukvöld í Hofskirkju.pdf]. Séra Þuríður Björg sagði söguna af tilurð jólasálmsins Heims um ból eftir séra Josep Mohr, lagið eftir organistann Franz Güber og samkvæmt sögunni voru mýs kveikjan að textanum. Við lok athafnar sungu gestir við raust ásamt karlakórnum Bjart er yfir Betlhem. Að aðventustund lokinni stóð gestum öllum að þiggja góðgerðir í boði Kvenfélagsins Lindarinnar í endurgerðu Staðarholti og þangað mætti bróðurpartur kirkjugesta og átti þar prýðilega stund í góðu samfélagi.

Dagur birtingar fréttar er 21. desember, ársins stysti dagur þ.e. vetrarsólstöður eru í dag á norðurhveli jarðar. Þá verður sólin syðst og lægst á lofti, dagurinn stystur og nóttin lengst fyrir íbúa norðurhvelsins. Á suðurhveli jarðar er þessu hins vegar öfugt farið þar sem íbúar þar halda í dag upp á sumarsólstöður. Á morgun tekur daginn að lengja á ný og næstu dægrin njótum við birtu jólaskreytinga og koma sér einkar vel nú þegar enginn er snjórinn.

Meðfylgjandi myndir af aðventukveldi eru tíðindamanns og Dagnýjar Sigurjónsdóttur.

Aðventukvöld í Hofskirkju.pdf
Tungumál


Skipta um leturstærð


LeitFlýtileiðir