Tillaga um byggingu á félagslegu húsnæði

28.12 2018 - Föstudagur

Á síðasta fundi sveitarstjórnar haldinn þann 13. desember lagði Þór Steinarsson sveitarstjóri fram tillögu sína er varðar vinnu til undirbúnings uppbyggingar á félagslegu húsnæði í sveitarfélaginu. Í bréfi Þórs til sveitarstjórnar segir að tillagan miðist við að stofnframlag Íbúðarlánasjóðs til framkvæmdanna fáist samþykkt. Fari svo verði farið í vinnuna þegar í upphafi árs 2019.

 

Í bréfinu segir ennfremur að stefnt verði að því að byggja í fyrsta fasa 6 íbúðir sem eru hannaðar með þarfir tekjulágra íbúa í huga og komi að einhverju eða öllu leyti í staðinn fyrir óhentugra húsnæði sem er nú þegar í notkun í þeim tilgangi. Reynslan af verkefninu verði nýtt til að taka ákvörðun um enn frekari uppbyggingu á húsnæði fyrir aldraða, öryrkja eða aðra sem þurfa á sérhönnuðu húsnæði að halda.

 

Á heimasíðu Íbúðarlánasjóðs, www.ils.is er nánar um málið fjallað og gefur að lesa m.a.: Íbúðalánasjóður veitir stofnframlög ríkisins til kaupa eða bygginga á almennum íbúðum. Markmið með veitingu þeirra er að bæta húsnæðisöryggi efnaminni fjölskyldna og einstaklinga með því að auka aðgengi að öruggu og viðeigandi íbúðarhúsnæði til leigu.

 

Við mat á umsóknum er lögð sérstök áhersla á eftirfarandi:

  • Nýbyggingar og fjölgun leiguíbúða
  • Íbúðir á svæðum þar sem þörf er fyrir leiguíbúðir fyrir leigjendur undir tekju- og eignamörkum

 

Auk þess er lögð áhersla á:

  • Hagkvæmar aðferðir við íbúðabyggingar í því skyni að lækka byggingarkostnað
  • Skapandi og hugvitsamlegar lausnir og góða hönnun
  • Íbúðir sem uppfylla þarfir íbúa á hverju svæði
  • Íbúðir sem uppfylla mismunandi þarfir ólíkra hópa
  • Að stuðla að fjölbreyttri samsetningu íbúa og félaglegri blöndun

 

Íbúðalánasjóði og sveitarfélögum er heimilt að veita stofnframlög til eftirtalinna aðila:

  1. Húsnæðissjálfseignastofnanna, sveitarfélaga og lögaðila sem eru alfarið í eigu sveitarfélaga.
  2. Lögaðila sem starfandi voru fyrir gildistöku laga um almennar íbúðir og uppfylltu skilyrði til að fá lán frá Íbúðalánasjóð skv. 37. gr. laga um húsnæðismál, nr. 44/1998, eins og ákvæðið var fyrir gildistöku laga um almennar íbúðir.
  3. Ráðherra getur heimilað að veita stofnframlag til annarra lögaðila ef þeir eru ekki reknir í hagnaðarskyni og það samræmist tilgangi og markmiðum laga um almennar íbúðir.

 

Félögin sækja um hjá Íbúðalánasjóð og hjá því sveitarfélagi sem íbúðirnar verða staðsettar í.

 

Stofnframlag ríkisins getur numið 18% af stofnverði íbúðar og getur verið í formi beins framlags eða vaxtaniðurgreiðslu. Ef stofnframlagið er í formi beins framlags greiðist það út í tvennu lagi fyrst við samþykkt umsóknar og síðan við útleigu íbúðar.

 

Framlag ríkisins er ígildi eigin fjár. Framlag sveitarfélaga getur falist í beinu framlagi, úthlutun lóðar eða lækkun eða niðurfellingu á gjöldum sem umsækjanda ber að greiða til sveitarfélagsins vegna íbúðanna. Forsenda fyrir veitingu stofnframlags er að bæði Íbúðalánasjóður og sveitarfélag hafi veitt samþykki.
Tungumál


Skipta um leturstærð


LeitFlýtileiðir