Áramótakveðja

31.12 2018 - Mánudagur

Árið 2018 heyrir brátt sögunni til, 364 dagar og ½ sólarhringur betur er að baki og á morgun hefst niðurtalningin á nýjan leik. Árið var merkt átökum utanlands einkum en seint mun heimurinn upplifa ár án stórra átaka. Innanlands var kosið til sveitarstjórna með tilheyrandi breytingum og sveitarfélögum heldur áfram að fækka. Mikið gekk á í pólitíkinni utan þings og sér ekki fyrir endann á hvernig mál kennt við Klaustur muni lykta. Vopnfirðingar geta litið nokkuð sáttir um öxl og sem fyrr mótast niðurstaðan af gjöfulleika hafsins. Breytingar urðu á eignarhaldi HB Granda hf. og var ákvörðun tekin að hætta bolfiskvinnslu félagsins á Vopnafirði og hefur eðlilega breytingar á atvinnustigið.

 

Ársins verður minnst fyrir hlýindi, enn eitt árið er í hópi hinna hlýjustu í sögunni. Við fögnum góðri tíð en eftir rigningar í haust og snemmvetrar tóku sunnanvindar að blása og snjóalög lítil um miðjan vetur. Í desember mælast plúsgráður á norðurpólnum og er t.a.m. snjólaust í flestum byggðum Grænlands við lok árs. Höfum við gengið til góðs götuna fram eftir veg …?

 

Ferðamenn fjölmenna en mjög hefur úr fjölguninni dregið enda má til sanns vegar færa að ekki yrði endalaust met slegið. Stærstu tíðindin eru erfiðleikar WOW Air og taprekstur Icelandair þrátt fyrir metfjölda farþega. Mikil uppbygging hefur átt sér stað til að mæta hinum aukna fjölda, hótel- og gistirými hafa aldrei verið fleiri og enn er byggt. Lágönnin styttist stöðugt en þrátt fyrir gríðarmiklar tekjur af ferðamönnum njóta innviðir ferðaþjónustunnar ekki fjármagns í réttu hlutfalli. Hlutur okkar Vopnfirðinga af kökunni er enn of lítill, víst munum við alltaf þurfa að hafa fyrir því að laða fólk til okkar verandi fjarri þjóðvegi 1 en hér er vissulega margt að sjá og upplifa.

 

Áramót 2.jpgÞáttur menningar var sem fyrr áberandi, líklega rís hæst utanför vopnfirsku kóranna í vor en í fyrstu utanför kóranna var haldið til frænda vorra í Færeyjum. Var frammistöðu kóranna vel fagnað og mættu ferðalangar einstakri gestrisni og sannaðist það orð sem af Færeyingum fer. Árangur leikmanna Einherja á knattspyrnuvellinum í karla- og kvennaflokkum bar nafn Vopnafjarðar víða og með jákvæðum hætti einum. Fyrir liggur samþykkt um uppbyggingu vallarhúss við íþróttavöllinn og verður bygging þess hafin á nýju ári. Framundan er spennandi ár í sögu Einherja og Vopnfirðinga um leið.

 

Erlendis frá bárust daglega fregnir af átökum, fólki á flótta og vaxandi náttúruhamförum, sem fræðingar rekja til athafna mannsins og hangir saman við hnattræna hlýnun. Sem kunnugt er hefur forseti BNA, Donald J: Trump, lengstum hafnað þeirri staðreynd að hnattrænni hlýnun sé okkur mannfólkinu að kenna og er uppteknari af múr en velferð jarðar. Í Sýrlandi situr Bashar al-Assad enn en sá maður hefur drepið eigið fólk í þúsunda tali til að tryggja völd sín og nýtur stuðnings Pútíns o.fl. Nær okkur loga borgir og bæir vegna átaka milli trúarhópa og svo virðist sem stjórnvöld t.a.m. í Svíþjóð hafi orðið undir í baráttunni. Það er dapurleg staðreynd og minnir okkur á mikilvægi þess að í upphafi skyldi endinn skoða. Heimsbyggðin fylltist hryllingi yfir fregnum af morðinu á blaðamanninum Jamal Khashoggi sem framið var af skefjalausri grimmd. Jákvæðasta frétt ársins er hins vegar björgun fótboltastrákanna úr hellinum á Tælandi.

 

Ísland nýtur þeirra augljósu kosta að vera eyja langt í norðri, engin landamæri liggja að landi okkar sem menn geta deilt um. Hingað flæðir fólk ekki svo auðveldlega yfir en það breytir ekki því að við eigum að hjálpa okkar minnsta bróður svo sem kostur er; hvort sem það er með því að taka á móti fólki eða hjálpa þeim til sjálfsbjargar heima fyrir. Okkur vegnar vel, betur en flestum en auðvitað má alltaf auka jöfnuðinn því nóg er til skiptanna. Þetta reddast viðhorfið er enn í fullu gildi og með bjartsýnina að vopni má fara býsna langt og hver veit nema Ísland verði áfram besta land í heimi og víst er landið okkar yndislegt – og forréttindi að eiga það sem fósturjörð.

 

Nú árið er liðið í aldanna skaut, og aldrei það kemur til baka – Vopnafjarðarhreppur óskar íbúum sínum og landsmönnum öllum farsældar á nýju ári - gleðilegt ár.
Tungumál


Skipta um leturstærð


LeitFlýtileiðir