1,8% erlendra ferðamanna á Íslandi til Vopnafjarðar 2017

08.01 2019 - Þriðjudagur

Að beiðni Vopnafjarðarhrepps vann fyrirtækið Rekstur og ráðgjöf ferðaþjónustunnar ehf. samantekt um komu ferðamanna, innlendra sem erlendra, til Vopnafjarðar á tilgreindu tímabili. Í samantekt Rögnvaldar Guðmundssonar er skýrsluna vann og byggir á Dear Visitors könnun RRF er áætlað til Vopnafjarðar hafi komið 36 þúsund erlendir ferðamenn og hafði fjölgað um 160% frá árinu 2010. Þetta þýðir að um 1,8% erlendra ferðamanna á Íslandi árið 2017 hafi til Vopnafjarðar komið en hlutfallið var 2,8% árið 2010.

 

Sumarmánuðina þrjá skv. sömu könnun fjölgaði erlendum ferðamönnum úr 12 þúsund 2010 í 26 þúsund 2017 eða um 120%. Þá er áætlað að utan háannar ferðaþjónustunnar, þ.e. vetrargestum, hafi fjölgað úr nær 2 þúsund árið 2010 í um 10 þúsund 2017 eða rúmlega fimmfalt, um 430%. Hlutfall erlendra vetrarferðamanna hélst óbreytt á tímabilinu og er 0,8%. Sá er munurinn á samanburðarárunum að árið 2010 komu 86% hinna erlendu gesta að sumarlagi en 72% árið 2017 hvað þýðir að 28% komu utan háannar.

 

Í samantekt RRF segir að frá árinu 2011 hafi ferðamönnum utan sumars fjölgað mun meira en sumargestum, júní-ágúst, sem leggur grunn að bættri nýtingu fjárfestinga í greininni. Skv. samantekt Ferðamálastofu, Ferðaþjónustan á Íslandi í tölum, var hótelnýting yfir árið 2017 84% á höfuðborgarsvæðinu meðan hún var 36% á Austurlandi. Fjölgun hótelrýma á þessum svæðum var sambærileg í % talið en sem dæmi fjölgaði hótelrýmum á Suðurnesjum um tæp 37% og nýtingin þar vel ásættanleg eða 75%.

 

IMG_4220.JPGHeildarfjöldi erlendra ferðamanna var um 2,2 milljónir árið 2017 og er um að ræða 24,1% fjölgun frá 2016 en þá voru erlendir ferðamenn tæplega 1,8 milljónir. Langflestir eða 98,7% ferðamanna komu til landsins með flugi um Keflavíkurflugvöll. Um 22 þúsund komu með Norrænu um Seyðisfjörð eða 1% af heild og um sjö þúsund með flugi um Reykjavíkur- eða Akureyrarflugvöll eða um 0,3% af heild. Gera verður ráð fyrir frávikum í talningum á Keflavíkurflugvelli þar sem þær ná til allra brottfara.

 

Fyrir landsbyggðirnar, einkum horft til Norður- og Austurlands, er lykilatriði fjölgun ferðamanna um Akureyrar- og Egilsstaðaflugvöll. Sbr. að ofan fara um 99% erlendra ferðamanna um Keflavíkurflugvöll og munu gera það meðan eldsneyti á flugvélar í millilandaflugi er 15,2 prósentum dýrara á Egilstöðum, og 7,7 prósentum dýrara á Akureyri en í Keflavík. Í þessu samhengi má velta fyrir sér af hverju flugvélar bresku ferðaskrifstofunnar Super Break, sem eru að fljúga til Akureyrar í tilraun til að markaðssetja sig á þeim áfangastað, af hverju þær hafa valið oftar en einu sinni að snúa vélum til Keflavíkur frekar en til Egilsstaða þegar ekki hefur verið hægt að lenda á Akureyri.

 

Að lokum er rétt að geta þess að 6-7% Íslendinga kom að jafnaði til Vopnafjarðar á bilinu 2001-2010. Í slæmu tíðarfari 2015 fækkaði í hópnum en fjölgaði umtalsvert 2017 er betur viðraði, munurinn um 6 þúsund manns, 16 þúsund 2015 og 22 þúsund 2017.
Tungumál


Skipta um leturstærð


LeitFlýtileiðir