Fagur vopnfirskur himinn fangaður

10.01 2019 - Fimmtudagur

Veturinn hefur hingað til verið í mildara lagi, snjór féll fyrst í seinni hluta nóvember á Vopnafirði; sá hvarf skjótt, snjó kyngdi niður nínunda desember og var með öllu horfinn þann 11. Á Gamlársdag gerði áhlaup svo brennu og flugeldasýningu var frestað fram á Nýársdag en síðan hafa mildir vindar blásið. Stundum hafa þeir verið hvassir og minnt fremur á sumar en vetur þegar hitinn hefur verið yfir 10°C, einungis er myrkrið ótvíræð áminning þess að norðurhvel jarðar hallar frá sólu.

 

Furðu margir hafa lýst því yfir að snjós sakni þeir ekki en viðurkenna að tíðin hefur verið óvenjuleg. Tæplega myndum við fagna því ef hér gætti ekki árstíða og sjálfsagt mun það seint verða hlutskipti okkar. Þótt snjó hafi skort hefur ekki verið skortur á fögrum dögum, einkum hafa himinhvolfin með samspili sólar og skýja ítrekað glatt okkur. Sannast að náttúran tekur allri list fram. Á landi okkar er að finna einhver öflugustu tjáningarform náttúrunnar, eldfjöll, hveri, jökla, víðáttu og eyðimörk svartra sanda. Landið er mótað af eldi, ís, vatni og vindum.

 

Meðfylgjandi eru myndir tíðindamanns teknar á nokkrum dögum á tímabilinu nóvember-janúar, vetrarmánuðir með áramótaskil.
Tungumál


Skipta um leturstærð


LeitFlýtileiðir