Tilraunaverkefni Íbúðalánasjóðs

18.01 2019 - Föstudagur

Vopnafjarðarhreppur var eitt hinna 33ja sveitarfélaga sem sóttu um þátttöku í tilraunverkefni ríkisins í húsnæðismálum en að baki verkefninu standa velferðarráðuneytið og Íbúðalánasjóður. Sjö sveitarfélög voru valin úr hópnum og fór svo að Seyðisfjarðarkaupstaður var hið eina af Austurlandi. Í 1. gr. reglugerðar um húsnæðisáætlanir segir að sveitarfélög skulu gera húsnæðisáætlun til fjögurra ára í senn. Skal hún byggja á greiningum um þörf fyrir íbúðarhúsnæði í sveitarfélaginu með tilliti til mismunandi búsetuforma.

 

Vopnafjarðarhreppur fékk EFLU verkfræðistofu til að vinna húsnæðisáætlun fyrir sveitarfélagið. Skýrsla stofunnar lá fyrir þann 26. júní 2018. Skv. bréfi Íbúðalánasjóðs dags. 11. september sl. leitaði sjóðurinn eftir sveitarfélögum til þátttöku í tilraunaverkefni um uppbyggingu á húsnæðismálum á landsbyggðunum. Verkefnið snúi að því að leita leiða til að bregðast við þeim mikla húsnæðisvanda sem ríkir víða á landsbyggðunum m.a. vegna óvirks íbúða- og leigumarkaðar og skorts á viðunandi íbúðarhúsnæði. Húsnæðisáætlun hlutaðeigandi sveitarfélags lá til grundvallar þátttöku í verkefninu.

 

Verkefnið sem hér um ræðir byggir meðal annars á lausnum sem reynst hafa vel í Noregi. Eru leiðirnar nokkuð opnar en verkefnin geta falið í sér nýbyggingar, endurbætur á eldra húsnæði eða breytingar á atvinnuhúsnæði í íbúðarhúsnæði. Á fundi sveitarstjórnar Vopnafjarðarhrepps hinn 13. desember sl. lá fyrir bréf sveitarstjóra um tillögu að byggingu á félagslegu húsnæði. Þar segir m.a. sveitarstjóri geri tillögu um að farið verði í vinnu við að undirbúa byggingu á félagslegum íbúðum á Vopnafirði að því gefnu að umsókn um stofnframlag Íbúðarlánasjóðs verði samþykkt til framkvæmdanna. Farið verði í vinnuna strax í upphafi ársins 2019. Stefnt verði að því að byggja í fyrsta fasa 6 íbúðir sem eru hannaðar með þarfir tekjulágra íbúa í huga og komi að einhverju eða öllu leyti í staðin fyrir óhentugra húsnæði sem er nú þegar í notkun í þeim tilgangi. Reynslan af verkefninu verði nýtt til að taka ákvörðun um enn frekari uppbyggingu á húsnæði fyrir aldraða, öryrkja eða aðra sem þurfa á sérhönnuðu húsnæði að halda.IMG_9086.JPG

Tillagan var samhljóða samþykkt.

 

Það gildir hér sem víða annars staðar að íbúum fjölgar ekki meðan húsnæði býðst ekki. Eru tilraunasveitarfélögin 7 hvött til að ganga til samstarfs við Bríeti, nýstofnað landsbyggðaleigufélag í eigu Íbúðalánasjóðs. Er félaginu ætlað að reka hagkvæma leiguþjónustu með sérstaka áherslu á landsbyggðirnar. Sveitarfélögin horfa einkum til byggingu lítilla íbúða þannig að fólk sem tekið er að eldast og býr í stórum húsum geti fært sig um set.

 

Fram kemur að þau sveitarfélög sem ekki voru valin til þátttöku verður af hálfu Íbúðalánasjóðs boðið til samtals um framhald þeirra verkefna sem þau kynntu í umsóknum sínum, sjóðurinn er reiðubúinn til að koma til móts við þau svo hægt verði að ráðast í uppbyggingu þeirra. 
Tungumál


Skipta um leturstærð


LeitFlýtileiðir