Þorri genginn í garð - bondadagur í dag

25.01 2019 - Föstudagur

Í dag er fyrsti dagur þorra, bóndadagur, dagur allra karlmanna og fá þeir hamingjuóskir sendar á þessum vettvangi. Er á sinn hátt stórmerkur því ekki hafa karlmenn annan dag sérmerktan. Samkvæmt gamla norræna tímatalinu er þorrinn, sem er fjórði mánuður vetrar og hefst sem fyrr greinir á bóndadegi á föstudegi í 13. viku vetrar, sem getur verið á bilinu 19. – 26. janúar - stendur uppá 25ta að þessu sinni. Þorranum lýkur á þorraþræl sem er laugardagurinn fyrir konudag og tekur þá góa við.

 

Að vanda munu Vopnfirðingar halda sitt þorrablót í félagsheimilinu Miklagarði svo sem áður var vikið að á síðunni, laugardaginn 26. janúar n.k., þ.e. á morgun og er tíðindamaður sannfærður um að þá verður gaman líkt og ávallt er.

 

Í íslenskri Orðsifjabók segir að orðið þorri (miðsvetrarmánuður) sé oftast tengt sögninni að þverra en einnig að það sé hugsanlega skylt lýsingarorðinu þurr. Orðið á sér samsvörun í öðrum norrænum tungum, svo sem færeysku, torri, og nýnorsku torre. Eðlilega hefur þorraheitið lifað lengst í hugum samtímafólks enda heitið fastbundið þorrablótum landsmanna, sem lifa enn góðu lífi en fátt hefur mátt lifa af því sem áður einkenndi íslenska þjóð enda hún upptekin við ný gildi, svona að mestu.

 

Um fyrsta dag Þorra segir í bréfi Jóns Halldórssonar í Hítardal (f. 1665) til Árna Magnússonar frá árinu 1728, að sú hefð sé meðal almennings að húsmóðirin færi út kvöldið áður og bjóði þorrann velkomin, og inn í bæ, eins og um tignann gest væri að ræða.

 

Eins segir í Þjóðsögum Jóns Árnasonar að bóndi skyldi bjóða þorra velkomin með eftirfarandi hætti:IMG_8187.JPG

 

... með því að þeir áttu að fara fyrstir á fætur allra manna á bænum þann morgun sem þorri gekk í garð. Áttu þeir aða fara ofan og á skyrtunni einni, vera bæði berlæraðir og berfættir, en fara í aðra skálmina og láta hina lafa og draga hana á eftir sér á öðrum fæti, ganga svo til dyra, ljúka upp bæjarhurðinni, hoppa á öðrum fæti í kringum bæinn, draga eftir sér brókina á hinum og bjóða þorra velkomin í garð eða til húsa. Síðan áttu þeir að halda öðrum bændum úr byggðarlaginu veislu fyrsta þorradag; þetta er „að fagna þorra“.

 

Má gera ráð fyrir að þeir hafi verið margir karlarnir sem hoppuðu í kringum hús sitt í morgunsárið, berleggjaðir með brókina á öðrum fæti en í nægilega síðri skyrtu til að skýla nekt sinni neðan nafla. Sá sem þetta ritar lét sig hafa það berfættur og þótti gott að komast inn að nýju enda snjólag nokkurt. Sem fyrr greinir er komið að þorrablóti á morgun sem er í huga tíðindamanns jafn ómissandi og Skaup ríkissjónvarpsins. Að formlegri dagskrá lokinni býðst Vopnfirðingum að stíga dans og hvað er ljúfara en að svífa inn í nóttina á vængjum söngs og tóna?
Tungumál


Skipta um leturstærð


LeitFlýtileiðir