Veiðistofn loðnu lítill

28.01 2019 - Mánudagur

Hafrannsóknarstofnun hefur haldið úti loðnuleit líkt og stofnuninni er ætlað að gera sl. mánuði. Í haust var farinn leiðangur og annar 04.-15. janúar sl. Hingað til hefur árangurinn ekki gefið tilefni til bjartsýni því veiðistofn loðnunnar er svo lítill, samkvæmt áðurgreindum mælingum, að hann nær ekki þeirri lágmarksstærð sem þarf til þess að mælt sé með loðnuveiðum á yfirstandandi vertíð. Þorsteinn Sigurðsson, sviðsstjóri uppsjávarlífríkis hjá Hafrannsóknastofnun, segir í viðtali við RUV að þó sé ekki öll nótt úti enn. Ráðist verður í frekari mælingar á stærð veiðistofnsins á næstunni í von um að loðnan skili sér á miðin í kringum landið.

 

Rannsóknaskipið Árni Friðriksson og veiðiskipin Aðalsteinn Jónsson og Börkur voru við mælingar 04. til 15. janúar. Þau mældu aðeins 214 þúsund tonn af kynþroska loðnu. Það er undir því magni sem þarf til að Hafrannsóknastofnun mæli með veiðum á vertíðinni.

 

Í september síðastliðinn fóru fram mælingar á stærð loðnustofnsins á víðáttumiklu svæði norður af Íslandi og yfir landgrunni Austur-Grænlands. Þá mældust aðeins 238 þúsund tonn af fullorðinni loðnu og um 11 milljarðar af ungloðnu og var út frá því ekki heldur mælt með upphafsaflamarki fyrir núverandi vertíð. Þann 10. desember fór veiðiskipið Heimaey í leiðangur til könnunar á útbreiðslu og magni loðnunnar og fann svipað magn og mælst hafði í september, einkum vestan Kolbeinseyjarhryggjar.

 

„Þessar niðurstöður eru í samræmi við það sem við sáum bæði í september og það sem farið var í desember þannig að þetta lítur ekkert sérstaklega vel út,“ sagði Þorsteinn í viðtalnu. „Á sama tíma er ennþá von. Ef við horfum á það sem var fyrir tveimur árum þá var staðan ósköp svipuð og þá kom ganga inn á Íslandsmið síðar. Þannig að þó þetta líti ekki vel út þá er ekki endilega öll nótt úti enn.“

 

HBGrandi-af vefsíðu félagsins.jpgLítilsháttar fannst af kynþroska loðnu út af Víkurál, þar fyrir austan mældist einkum ókynþroska loðna allt austur að Djúpál. Kynþroska loðna fannst helst út af Strandagrunni og austur á Kolbeinseyjarhrygg. Lengra hafði fullorðin loðna ekki gengið.

 

„Vissulega ollu niðurstöðurnar vonbrigðum en við erum að reyna að vakta það sem er þarna. Meðan það er svoleiðis er hvorki hægt að útiloka né staðfesta að meira komi,“ segir Þorsteinn. „Það voru að hluta til erfiðar aðstæður. Það var ís út af Norðvesturlandi þar sem búast mátti við að einhver loðna væri. Það getur verið að það sé eitthvað meira þar undir. Eins höfum við séð síðari ár að loðnan á það til að koma frekar seint inn á okkar mið. Þannig að við erum ekki búin að útiloka þetta ennþá.“

 

Sérfræðingar Hafrannsóknastofnunar og útgerðir uppsjávarskipa ætla að halda áfram samstarfi um mælingar og vöktun á loðnustofninum og verður farið af stað strax í næstu viku.

 

Íslandsmyndin er fengin af vef Hafró og sýnir leitarsvæði skipanna.
Tungumál


Skipta um leturstærð


LeitFlýtileiðir