Leikskólabörn heilsuðu upp á sveitarstjóra

06.02 2019 - Miðvikudagur

Í dag er dagur leikskólans og af því tilefni fékk Þór sveitarstjóri sérlega ánægjulega heimsókn er 22 leikskólabörn heiðruðu hann með nærveru sinni. Mætti ungviðið í fylgd starfsmanna leikskólans, þeirra Bjargar, Hrafnhildar, Rósu, Kötlu Ránar og Hemmerts Þórs. Var hópnum stefnt inn á skrifstofu sveitarstjóra hvar þeirra beið ávaxtasafi, saltstangir og piparkökur. Þurfti ekki að hvetja hina ungu gesti til að bragða á veitingunum og óvíst um matarlystina þegar að hádegisverði kom.

 

Sveitarstjóri gerði sitt ítrasta til samtals við krakkana, var miságengt sem gengur en þau voru vel með á nótunum þegar hann spurði þau nokkurra spurninga að loknum Þorraþrælssöngs en í textanum er orð að finna sem þau öllu jafna heyra ekki né við eldri ef því er að skipta. Voru ungir nemendurnir furðu vel að sér og áhugann skorti ekki. Af kontórnum héldu börnin á leikskólann en þar beið þeirra ball/diskó og án efa hafa þau skemmt sér vel.

 

Leikskólakennarar, stjórnendur leikskólanna og starfsfólk er hvatt til að halda upp á daginn með einhverjum hætti. Margir leikskólar hafa opið hús og eða vekja athygli á frábæru starfi leikskólanna með öðrum hætti. Í þeim góða hópi er sannarlega leikskólinn Brekkubær.IMG_4728.JPG

 

Svona til upprifjunar fylgir fyrsta vers Þorraþræls – og syngið þið nú!

 

Nú er frost á Fróni, frýs í æðum blóð, kveður kuldaljóð Kári í jötunmóð. Yfir laxalóni liggur klakaþil, hlær við hríðarbyl, hamragil. Mararbára blá brotnar þung og há unnarsteinum á, yggld og grett á brá. Yfir aflatjóni æðrast skipstjórinn, harmar hlutinn sinn, hásetinn.




Tungumál


Skipta um leturstærð


Leit



Flýtileiðir