Finnafjarðarverkefnið til umræðu

08.02 2019 - Föstudagur

Verkfræðingurinn Hafsteinn Helgason hjá Verkfræðistofunni EFLU var til viðtals í morgunþætti Rásar eitt á RUV í fyrradag þar sem Finnafjarðarverkefnið svokallaða var til umræðu. Það er kunnara en frá þurfi að segja að sveitarfélögin Langanesbyggð og Vopnafjarðarhreppur hafa um árabil unnið að risavöxnu verkefni sem alþjóðleg umskipunarhöfn í Finnafirði er og töluvert hefur verið til umfjöllunar í fjölmiðlum þjóðarinnar. Þarna munu vera fyrirtæki staðsett sem eru í hafnsækinni starfsemi en landrými þarna leyfir allt að 1200 hektara athafnasvæði og 6 kílómetra langa viðlegukanta samtals.

 

Í viðtalinu sagði Hafsteinn að innan skamms tíma verði tvö félög stofnuð um verkefnið, annars vegar hafnarsamalag og formlegt þróunarfélag hins vegar. Þá verði hætt að vinna með hugmynd og þess í stað unnið með kerfisbundnum hætti að formlegu verkefni. Verkefnið varðar fyrst og fremst umskipunarhöfn fyrir vörur annars staðar frá. Horft er til þeirra veðurfarslegubreytinga sem eiga sér stað en ísinn á norðurhveli er smám saman að hverfa. Gámaflutningur um pólinn eru þó ekki á næstu árum, líklega fyrst eftir u.þ.b. 40 ár þegar íshellan er að fullu horfin.

 

Sú staðreynd að ísinn norðan við okkur skuli vera að hverfa opnar á ýmsa möguleika samanber gámaflutninga yfir pólinn en samtímis hljótum við að staldra við og spyrja okkur þeirrar áleitnu spurningar hver framtíð jarðarinnar er? Öfgar í veðurfarinu er bein áhrif hnattrænnar hlýnunar og er Hafsteinn í hópi þeirra sem eygir tækifærið og heldur áfram:

 

Finnafjörður 4.jpgÍshellan sem þekur milli 12-14 milljón m2 að vetri hefur þynnst gríðarlega á sl. áratugum, verður varla þykkri en 1,5 metri og minnkar í ca. 5 milljón m2 að sumri. Ísbrjótar sigla í gegnum þennan ís án vandkvæða og með bráðnun verður hægt að sigla beint yfir pólinn. Þetta er mikið svæði eða á stærð við Afríku og það mun örugglega gerast að leitað verði í þær auðlindir sem þarna er að finna, það gerir maðurinn alltaf. Skipasiglingum fylgja margvíslegar áhættur, fara verður með gát en hafið er að súrna með tilheyrandi breytingu á lífríki sjávar. Fyrir samfélög sem lifa einkum á 5 uppsjávartegendum er brýnt að leita nýrra leiða til atvinnusköpunar.

 

Í tileflli Finnafjarðarverkefnisins er umfangið gríðarmikið og verður ekki gert nema með þátttöku margra aðila. Að því koma þýska félagið Bremenport, sveitarfélögin Vopnafjarðarhreppur og Langanesbyggð, verkfærðistofan EFLA og íslenska ríkið. Ekki er stefnt að uppbyggingu stóriðju heldur geymslu en mýmörg störf munu skapast samfara þeirri uppbyggingu. Vetnisframleiðsla er vænlegur kostur fyrir Íslendinga og gæti verið fundinn staður þarna og það flutt utan í bundnu amóníaksformi. Segir Hafsteinn Ísland aldeilis ekki úr leið við þessa opnun um pólinn og mun t.a.m. koma fyrirtækjum á Grænlandi til aðstoðar því meðan jökullinn bráðnar ofan á Grænlandsfjöllum á næstu áratugum munu aðstæður til siglinga vera víða háskalegar við landið.

 

En hver er kosturinn við þennan stað langt frá þéttbýli þjóðarinnar? Í fyrsta lagi er það dýpið en langt inn í Finnafjörð er dýpið við land allt að 50 metrar. Hafsteinn telur mölina þarna til kosta svæðisins, hana má nýta við uppbygginguna með ýmsum hætti en umfram allt er það aldan sem er óvenju lág. Sem dæmi koma þarna öldur á 100 ára fresti sem eru sambærilegar við þær sem koma við Gróttu árlega! Verkefnið, sem Hafsteinn hefur unnið við frá 2008, er á góðu skriði og hefur m.a. verið rætt við nokkur fyrirtæki um uppbyggingu í Finnafirði en allt tekur sinn tíma því verkefnið er risavöxnum mælikvarða. Stór verkefni taka tíma, áratugur er skammur tími í því samhengi. Hvað varðar framhald verkefnisins er samstarf við landeigendur afgerandi og því brýnt að eiga við þá gott samstarf og halda þeim vel upplýstum sem og öðrum sem hyggjast að verkefninu koma.

 

 
Tungumál


Skipta um leturstærð


LeitFlýtileiðir