690 Vopnafjörður tilnefnd til Eddunnar – eða hvað?

14.02 2019 - Fimmtudagur

Þann 07. febrúar sl. voru tilnefningar til Edduverðlauna 2019 kynntar á öldum ljósvakans. Í því felst upphefð að fá slíka tilnefningu enda margir kallaðir en fáir útvaldir. Að sjá nafn heimilarmyndarinnar 690 Vopnafjörður meðal þeirra sem tilnefndar eru í flokki heimildarmynda vakti eðlilega athygli og gleði meðal þeirra sem málið varðar – og þeir eru margir. Síðan gerist það sem líklega flestir hefðu talið útilokað, tilnefningin var dregin til baka …

 

Gleðin var því skammvin en hvernig getur svona gerst? Fréttablaðið fjallaði um málið í gær undir fyrirsögninni Stjórn Eddunnar fundar vegna á­sakana um spillingu. Kvikmyndagerðarkonan og listakonan Hulda Rós furðaði sig á því að heimildarmyndin 690 Vopnafjörður hafi verið fjarlægð úr lista tilnefninga til Eddunnar í ár. Hún sakar stjórn Eddunnar og ÍKSA (Íslenska sjónvarps – og kvikmyndaakademían) um spillingu og krafðist svara um það hvers vegna myndin hafi misst tilnefningu sína.

 

Framkvæmdastjóri ÍKSA, Auður Elísabet Jóhannsdóttir, sagði í samtali við Fréttablaðið að akademían taki ásakanir Huldu Rósar um spillingu alvarlega og muni funda í vikunni um málið. Hins vegar virðist ákvörðuninni um að fjarlægja 690 Vopnafjörð af lista muni standa eða hvernig ber að skilja svar Auðar í viðtalinu: „Sú ákvörðun, um breytinguna, var tekin af stjórn en það þarf að ræða þessar ásakanir á hendur ÍKSA.“ Þ.e. ákvörðunin, sem er í huga sem þetta ritar  óskilijanleg meðan rök liggja ekki fyrir, stendur en ásakanirnar þarf að ræða.

 

Hulda Rós sagði frá því í færslu sinni í fyrrakvöld að heimildarmyndin 690 Vopnafjörður hafi fengið tilnefningu á undanþágu til bestu heimildarmyndarinnar á Eddunni í ár. Undantekningin hafi, meðal annars, verið gefin vegna áskoranna þeirra sem völdu tilnefningar og hafi kvartað undan fjarveru hennar úr tilnefningarmöguleikum. Myndin hafi að lokum hlotið tilnefningu en eftir að þær voru gerðar opinberar hafi undantekningin verið dregin til baka.

 

690 Vopnafjörður.jpgÍ upprunalegum tilnefningum sem kynntar voru þann 07. febrúar sl. voru þrjár myndir tilnefndar sem heimildarmynd ársins. Það eru UseLess, Svona fólk 1970-1985 og 690 Vopnafjörður. Í stað 690 Vopnafjarðar má nú sjá á heimasíðu Eddunnar að heimildarmyndin Litla Moskva er tilnefnd, en 690 Vopnafjörður ekki. Hinar tvær eru áfram tilnefndar.

Vísað er til ummæla Huldu Rósar í þessu samhengi um 690 Vopnafjörður, þar segir m.a.: „Nú er það þannig að ég gaf heimildarmyndinni 690 Vopnafjörður hæstu einkunn. Hún var eina heimildarmyndin meðal þeirra sem sendar voru inn sem mátti flokka sem 'creative documentary' og sem hefði átt erindi á alþjóðlegar kvikmyndahátíðir.“ Creative documentary má þýða sem skapandi heimildarmynd.

 

Tíðindamaður hafði samband við Auði Elísabetu að þessu tilefni í gær. Í stuttu svari sem barst seint í gærkvöldi segir að stjórnin muni hittast í dag og fregna að vænta í framhaldi af honum. Upplýst verður um svar akademíustjórnar þegar það liggur fyrir.
Tungumál


Skipta um leturstærð


LeitFlýtileiðir