Af aðalfundi Einherja – ný stjórn tekin við

15.02 2019 - Föstudagur

Ungmennafélagið Einherji hélt aðalfund sinn í gærkvöldi í félagsheimilinu og var vel mætt til fundar. Tók fundurinn til áranna 2017 og 2018 en fundurinn 22. febrúar á liðnu ári varðaði árið 2016. Sem fyrr hélt Einherji úti myndarlegu starfi, tefldi fram meistaraflokksliðum í karla og kvennaflokki, 11 manna liði í 4. flokki kvenna auk þess sem aðrir flokkar tóku þátt í fjölmörgum mótum. Þau merku tímamót urðu á fundinum að fráfarandi stjórn kvaddi í heild sinni og við tók ný skipuð ungu áhugasömu fólki.

 

Úr stjórn Einherja gengu Einar Björn Kristbergsson, Aðalbjörn Björnsson, Matthildur Ósk Óskarsdóttir, Jóhann Már Róbertsson og Magnús Már Þorvaldsson. Nýja stjórn félagsins frá og með aðalfundinum skipa þau Víglundur Páll Einarsson, Linda Björk Stefánsdóttir, Bjarney Guðrún Jónsdóttir, Þorgrímur Kjartansson og Kristinn Ágústsson. Varamenn eru þau Sólrún Dögg Baldursdóttir og Magnús Þór Róbertsson. Er nýrri stjórn hér með færðar árnaðaróskir.

 

Stóra fregnin við stjórnarbreytingu er sú staðreynd að Einar Björn hættir eftir 40 ára starf í þágu Einherja. Allt frá unga aldri hefur líf Einars Björns verið fastbundið ungmennafélaginu og sjálfsagt má leita samjöfnuðar lengi. Það er æði annasamt starf að vera stjórnarmaður í íþróttafélagi þar sem hver stund er samfélaginu gefin. Aðrir hafa starfað mislengi, Aðalbjörn hefur með hléum starfað um áratugaskeið og Magnús Már kveður eftir 15 ár samfellt starf. Matthildur og Jóhann Már sátu í stjórn um árabil.

 

IMG_0074.JPGFormaður viðhafði sama form á yfirreið sinni um skýrslu stjórnar, greindi frá starfinu á þeim tveimur árum sem málið varðaði stutt slæðusýningu. Skipta myndir formanns í þágu Einherja þúsundum. Að vanda myndafjöld úr starfinu en þær gefa umfjölluninni líf og styðja frásögnina alla. Þáttur Einars Björns var fyrirferðamikill af kunnum ástæðum og allir fráfarandi stjórnarmenn fengu sitt pláss í orðræðu formanns sem að lokum vék að stöðu félagsins á þessum tímamótum. Á tímabilinu rís hæst sú gríðarmikla framkvæmd sem uppbygging vallarsvæðisins er, sjálboðavinna Einherjafélaga staðfesting þess hvað gera má með samstöðunni. Bygging vallarhúss næsta stóra skrefið í uppbyggingunni og ber að fagna. Viðeigandi er að í ár fagnar Einherji 90 ára afmæli – verður því sérstaklega fagnað.

 

Einar Björn gerði grein fyrir ársreikningum félagsins þau 2 ár sem til umfjöllunar voru og gerði það vel. Reksturinn er eðlilega þungur þegar þess er gætt að suðurferð kostar meistaraflokk um ½ milljón króna og þrátt fyrir veltu á 3ja tug milljóna stendur reksturinn glöggt. Aðhalds er gætt á öllum sviðum og Einherji keppir á engan hátt við önnur lið 3. deildar karla eða 2. deildar kvenna þegar kemur að samningum við leikmenn.

 

Bjarney Guðrún gerði grein fyrir þeirri vinnu sem hún hefur innt af hendi í þágu félagsins á sl. mánuðum en að því er stefnt að Ungmennafélagið Einherji bætist í hóp fyrirmyndarfélaga á Íslandi. Er margs að gæta og getur tíðindamaður staðfest að Bjarney hefur unnið sérlega gott starf sem koma mun félaginu og öllum þeim sem því tegjast vel þegar fram líða stundir. Aðalbjörn tók til umfjöllunar félagaskráningu en lengi var ætlað að fara í hana. Í þá mikilsverðu vinnu var farið á sl. hausti að frumkvæði hans og eru nú þegar um 90 manns skráðir félagar í Einherja og verða áður en þetta ár er úti miklu fleiri má gera ráð fyrir. Framangreind vinna ásamt vallarsvæðinu, frekari uppbyggingu þess og bygging vallarhúss mun bæta umgjörð félagsins á allan máta og framundan bjartir tímar hafandi fólk í fararbroddi sem ann félagi sínu.

 

Af formlegum fundi loknum bauðst fundargestum að bragða á kökuhlaðborði stjórnar og þáðu það flestir.

 

Meðfylgjandi eru myndir af aðalfundi.
Tungumál


Skipta um leturstærð


LeitFlýtileiðir