Loðnuleit framhaldið – kolmunnaveiðar hafnar

20.02 2019 - Miðvikudagur

Það er gömul saga og ný að ekki er á vísan að róa þótt tiltekið tímabil kunni að vera skilgreint sem loðnuvertíð eða síldar- allt eftir hver árstíminn er. Stundum gengur vel, stundum verr og stundum ekki neitt. Samkvæmt síðustu upplýsingum Hafrannsóknarstofnunar eru engar nýjar forsendur fram komnar sem breyta skilyrðum veiðiráðgjafar í loðnu eftir leit úti fyrir Austfjörðum og Suð-Austurlandi um nýliðna helgina. Næst verður haldið til norðurs.

 

Fimm skip tóku þátt í leitinni um helgina. Ásgrímur Halldórsson frá Hornafirði er enn að leita úti fyrir Norð-Austurlandi. Tvö norsk rannsóknarskip, Roaldsen og Åkeröy, komu til Seyðisfjarðar sl. mánudag til að leita skjóls undan óveðri og þangað kom einnig Árni Friðriksson, skip Hafrannsóknastofnunar, sökum bilunar. Öll munu þau halda leit áfram ásamt Polar Amaroq.

 

Að sögn Þorsteins Sigurðssonar, sviðsstjóra uppsjávarsviðs hjá Hafrannsóknastofnun, sl. mánudag stóð til að næst yrði haldið norður fyrir land. Fregnir hafa borist af því að skip á ferð undan sunnanverðu landinu hafi orðið vör við loðnugöngur en hann segir að þrátt fyrir leit þar um helgina hafi ekki fengist neinar upplýsingar sem breyti forsendum þannig að hægt sé að hefja loðnuveiðar.

 

Ekki verður endalaust beðið og hafa því mörg austfirsk skip snúið sér að kolmunnaveiðum vestur af Írlandi. Fiskurinn kom á miðin um miðja síðustu viku og síðan hefur veiðin gengið ágætlega. Venus NS kom til hafnar á Vopnafirði í upphafi vikunnar með afla og Víkingur AK er nú í höfn svo vélarnar eru teknar að snúast í vinnslusölum HB Granda. Finnist loks loðna verður stefna sett á að veiða það sem býðst má gera ráð fyrir.
Tungumál


Skipta um leturstærð


LeitFlýtileiðir