Ályktun sveitarstjórnar Vopnafjarðarhrepps um flugsamgöngur

20.02 2019 - Miðvikudagur

Í tilefni af drögum að stefnu um almenningssamgöngur sem kynnt var 14. febrúar sl. vill sveitarstjórn Vopnafjarðarhrepps leggja þunga áherslu á mikilvægi þess að flugþjónusta til Vopnafjarðar og Þórshafnar verði ekki skert. það skiptir miklu máli að jaðarbyggðir landsins búi við traustar og skilvirkar almennings- og sjúkrasamgöngur. Veðurfar á Norðausturlandi býður ekki upp á að íbúar svæðisins reiði sig einvörðungu á vegasamgöngur, sér í lagi á stað eins og Vopnafirði þar sem allar slíkar samgöngur eru um langa fjallvegi.

 

Einnig er það þekkt vegferð að þegar flug leggst af þá minnkar og hverfur fjármagn til viðhalds flugvalla. Það þarf varla að taka fram að forsenda þess að hér sé hægt að halda úti byggð og þjónustu og nýta mannvirki og fjárfestingar sem skila þjóðarbúinu gríðarlegum verðmætum þarf að vera gott aðgengi að sjúkraþjónustu og góðar samgöngur almennt.

 

Flugfarþegum á milli Vopnafjarðar og Akureyrar hefur fjölgað um 35,7% frá árinu 2016, m.a. vegna lækkunar á flugfargjöldum. Því verður að teljast einkennileg tillögugerð að minnka flugsamgöngur á landsbyggðinni þegar fyrir dyrum stendur að fara í aðgerðir á næsta ári sem koma mögulega til með að breyta rekstrargrundvelli slíkrar starfsemi, sbr. skosku leiðina með stórbættu aðgengi að ferðamátanum sem mun hafa í för með sér aukna notkun.

 
Tungumál


Skipta um leturstærð


LeitFlýtileiðir