Konudagur í gær – góa hafin

25.02 2019 - Mánudagur

Í gær var konudagur samkvæmt gamla tímatalinu og fyrsti dagur í góu sem markar næstseinasta mánuð vetrarmisseris. Stendur konudagur ávallt upp á sunnudag í 18. viku vetrar. Sem kunnugt er markar bóndadagurinn fyrsta dag þorra og í ljósi þess að við höldum í þessa tvo daga erum við meðvituð um þorra og góu. Einmánuður tekur við af góu en er okkur löngu gleymdur. Á konudaginn minntust bændur og eiginmenn húsfreyjunnar með þvi að fagna góu, sem færir með sér vaxandi birtu og vorinnganginn.

 

Alllöng hefð er fyrir messu á konudegi, hún þá haldin í Kaupvangskaffi undir heitinu kaffihúsamessa. Í ljósi þess að liðin helgi stóð upp á vetrarfrí í grunnskólanum var messunni flýtt og hún haldin sunnudaginn 17da febrúar sl. Einherji hélt sínu striki og bauð á konudegi blóm og kökur til sölu. Sumir keyptu hvoru tveggja, aðrir einungis blóm og enn aðrir létu jafnvel köku duga. Salan gekk vel, konur voru gladdar og félagið fékk þarfan aur í kassann. Eru Einherjamenn kaupendum innilega þakklátir.

 

IMG_0116.JPGSem fyrr greinir var messan í tengslum við konudag haldin viku fyrr og var mætingin með ágætum. Messuformið er brotið upp í kaffihúsamessu og hefur mælst vel fyrir. Sr. Þuríður Björg hélt utan um viðburðinn og fórst það vel úr hendi. Karlakórinn söng undir stjórn söngstjóra síns Stephen Yates og unglingar úr hópi Einherja stóðu vaktina og þjónuðu gestum til borðs.

 

Meðfylgjandi eru myndir frá messunni en þær sem tíðindamaður tók af Einherjapiltum við blómasölu svo slæmar að þær eru ekki birtingarhæfar. Það breytir engu um framgöngu þeirra því þeir stóðu sig með stakri prýði.
Tungumál


Skipta um leturstærð


LeitFlýtileiðir