Þrjár stúlkur frá Einherja í landsliðsúrtaki

27.02 2019 - Miðvikudagur

Ungmennafélagið Einherji á Vopnafirði hefur um langt árabil vakið athygli fyrir framgöngu sína sama hvort horft er til yngri flokkastarfs eða meistaraflokka. Innan íþróttahreyfingarinnar er sú skoðun almenn að félaginu skuli hafa auðnast að halda úti keppnisliði í meistaraflokki karla og kvenna sl. 4 ár auk myndarlegs yngri flokkastarfs sé markvert afrek. Er skemmst að minnast þess að félagið hlaut Grasrótarverðlaun KSÍ 2016. Nú berast af því fregnir að þrjár stúlkur úr 3. flokki Einherja hafi verið valdar í úrtakshóp fyrir landslið kvenna 15 ára og yngri í knattspyrnu.

 

Austurfrétt tók til umfjöllunar þessa athyglisverðu framgöngu hinna ungu Einherjastelpna þann 15. febrúar sl. og ræddi við Sigurð Donys þjálfara þeirra sem segir árangur stelpnanna sanna að ýmislegt sé hægt ef fólk ætli sér það.

 

„Þær ætla sér langt og þekkja ekkert annað en að leggja hart að sér. Þær eru búnar að vinna fyrir þessum árangri,“ segir Sigurður Donys Sigurðsson, sem þjálfað hefur stelpurnar frá því þær vor sex ára gamlar, þær Amöndu Lind Elmarsdóttur, Kamillu Huld Jónsdóttur og Söru Líf Magnúsdóttur. Að sögn Sigurðar hafa hæfileikar fleiri stelpna í sama flokki frá Einherja vakið töluverða athygli. Kamilla Huld og Sara Líf eru fæddar árið 2004 en Amanda Lind 2005, sem gerir valið á henni enn eftirtektarverðara.

 

Úrtakshópurinn kom saman til æfinga um liðna helgi í höfuðstað lýðveldisins. Það er auðvitað frétt að jafn lítið félag og Einherji eigi þrjár stelpur í landsliðsúrtakinu. Segir Sigurður fleiri stelpur úr þessum árgöngum á Vopnafirði sem þykja einkar efnilegar. Alls eru 32 stelpur í úrtakshópnum, flestar frá Stjörnunni, ÍBV og Breiðabliki, fjórar. Einherji er eina liðið sem á þrjár en tvær koma frá Haukum, ÍA, Val og Fylki. Þarna er um að ræða félög með langa hefð í kvennaknattspyrnu með margfalt meiri íbúafjölda að baki sér en Einherji.IMG_7453.JPG

 

„Þetta er sigur fyrir félagið og Vopnfirðinga og sýnir að allt er hægt ef maður ætlar sér það. Hugarfar þessara stelpna er einstakt og þær tilbúnar að leggja á sig vinnu. Foreldrarnir eru líka tilbúnir að leggja á sig hvað það sem þarf til að hjálpa þessum stelpum til að ná enn lengra. Ég er stoltur fyrir hönd þeirra, Einherja og Vopnfirðinga,“ segir Sigurður Donys.

 

Einherji hefur síðustu ár sameinað tvo árganga í flokkum til að ná liðum til keppni. Þar hefur liðið náð eftirtektarverðum árangri og komst meðal annars í úrslitakeppni A-liða á landsvísu í fjórða flokki síðasta sumar. „Við höfum lagt mikla áherslu á liðsheildina. Til að ná árangri þarf hver og einn að leggja sig fram.“ Segist Sigurður Donys helst óttast að stelpurnar verði ekki mikið lengur á Vopnafirði og leiti annað til að svala metnaði sínum.

 

Framangreint er ekki að ástæðulausu sagt því sökum mannfæðar má lítið út af bera og nú hefur ákvörðun verið tekin að meistaraflokksliði kvenna verður ekki teflt fram á næstkomandi sumri. Ástæðan er að bróðurpartur þess hóps sem myndaði liðið sl. sumar verður ekki með, flestar farnar annað, sumar til að leika knattspyrnu, aðrar ekki. Í ljósi hins efnilega hóps sem tilheyrir 3. flokki kvenna og leikur á Íslandsmótinu í sumar er mikilvægt að markmiðið sé skýrt, meistaraflokkslið Einherja innan fárra ára. Án ábyrgðar að horfa til sumarsins 2020? Þessa dagana vinnur stjórn Einherja að málefnum meistaraflokks karla og er ráðning þjálfara forgangsverefni.
Tungumál


Skipta um leturstærð


LeitFlýtileiðir