Mælifell ehf. 30 ára

04.03 2019 - Mánudagur

Vopnfirska byggingafyrirtækið Mælifell ehf. hélt upp á 30 ára afmæli fyrirtækisins sl. föstudag að viðstöddu fjölmenni. Vildi margur samfagna þeim bræðrum og starfsmönnum Mælifells en stofndagur þessa öfluga fyrirtækis er 28. febrúar 1989. Fram kom í máli Steindórs framkvæmdastjóra að þeir hefðu sýnt aðgæslu frá fyrstu stundu í rekstri fyrirtækisins en það er að æra óstöðugan að ætla að tilgreina öll þau verkefni sem Mælifell hefur komið að í 30 ára sögu þess.

 

Mælifell hefur þá sérstöðu að vera eina verktakafyrirtækið í byggingargeiranum á Vopnafirði. Sjálfsagt má færa fyrir því rök að ekki rúmi lítið samfélag annað. Í ljósi þessarar stöðu eru verkin stór sem smá æði fjölbreytt sem kallar á víðtæka þekkingu og færni starfsamanna. Hafa þeir sýnt margsinnis að Mælifell ræður við æði fjölbreytt verkefni. Þótt ekki verði farið í samantekt þeirra má þó nefna þau nokkur horft til sl. tveggja áratuga, tímaröð þeirra látin liggja á milli hluta.

 

IMG_0201.JPGViðbygging grunnskólans, viðbygging leikskólans, endurbygging Kaupvangs, nýbygging veiðihússins Fossgerði, parhús við Hafnarbyggð, fjósbyggingar í Engihlíð og Háteigi, endurbætur Hótels Tanga, safnaðarheimili Vopnafjarðarkirkju en stærstu verkefni fyrirtækisins tengjast uppbyggingu HB Granda snemma á þessum áratug ásamt endurbættri hafnaraðstöðu. Samantekin er vinnan við byggingar HB Granda gríðarleg og komu mýmargir iðnaðarmenn að verkunum sem sum hver voru flókin í framkvæmd.

 

Fjöldi mynda fylgir fréttinni, myndir af nýliðinni afmælishátíð, aðrar af nokkrum verkefnum. Að lokum eru árnaðaróskir Vopnafjarðarhrepps til handa Mælifelli ehf. ítrekaðar.
Tungumál


Skipta um leturstærð


LeitFlýtileiðir