Öskudagurinn

07.03 2019 - Fimmtudagur

Öskudagurinn er dagur allra barna óháð aldri enda er aldurinn afstætt hugtak. Hvað er líka yndislegra en syngjandi, skríkjandi, hrópandi, dansandi börn íklædd alls kyns búningum þess albúin að kyrja nokkra söngva gegn umbun nokkurri? Nú brá svo við að tíðindamaður var fjarri góðu gamni en hefði öllu jafna verið í íþróttahúsinu hvar nemendur og starfsmenn skólans koma ávallt saman að morgni öskudags uppáklædd að hætti dagsins. Í ljósi fráveru var leitað til góðra vina sem sáu til þess að dagurinn var festur á mynd(ir) og er þær að finna hér að neðan.

 

Það er ánægjuleg hefð að börnin komi í gjallarhornið kynni sig í gervi tiltekinnar persónu. Ómissandi hluti öskudags er baráttan við tunnurnar tvær hvar nemendur slá köttinn úr tunnunni. Skín úr andliti velflestra að nú skal tekið á því og sumir fá óþægilegt högg til baka þegar tunnan var barin af afli – eins og ávallt stóðu tunnurnar höggin lengi af sér. Að þessu sinni voru engir tunnukóngar, fremur drottningar því köttinn slógu Lára Ingvarsdóttir og Amanda Líf Elmarsdóttir Að samveru lokinni í íþróttahúsinu var rölt um bæinn í ágætis veðri og að vanda var komið við á hreppsskrifstofunni, sem bauð upp á allt í senn notalegt viðmót starfsmanna, góðgæti í poka, öskupoka að hætti Dittu og myndatöku. Varla verður beðið um meira, jafnvel þó öskudagur sé.

 

Meðfylgjandi eru ljósmyndir frá öskudeginum og þar er þáttur kvenna afgerandi því myndirnar tóku Þórhildur Sigurðardóttir, Hrönn Róbertsdóttir og Sólrún Dögg Baldursdóttir. Hafi þær bestu þökk fyrir.
Tungumál


Skipta um leturstærð


LeitFlýtileiðir