Af aðalfundi Landbótar

13.03 2019 - Miðvikudagur

Skógræktar- og landgræðslufélagið Landbót var fyrir nokkrum árum endurvakið og hefur síðan unnið að málefnum skógræktar í sveitarfélaginu. Skógrækt er í eðli sínu þolinmæðisvinna því afrakstur mikilla verka verður fyrst sýnilegur að mörgum árum liðnum. Flestir þekkja það að ganga skógarstíga og upplifa skjólið og ilminn sem þar má finna. Skógar veita fjölbreytta þjónustu sem maður og náttúra nýta sér. Þeir veita skjól, eru eftirsótt útivistarsvæði en þeir verða ekki til að engu og frjáls félagasamtök eins Landbót hverju samfélagi mikilvæg.

Þann 14. febrúar sl. hélt Landbót aðalfund sinn í golfskálanum og sóttu hann 8 manns. Sjálfsagt hefðu fleiri sýnt fundinum áhuga en á sama tíma var fjölmennur aðalfundur Einherja haldinn. Félagsmenn eru um 30. Að neðan er að finna útdrátt úr skýrslu formanns sem flutt var á aðalfundinum. Nýja stjórn Landbótar mynda:

 

  • Else Möller, formaður
  • Höskuldur Haraldsson, ritari
  • Baldvin Eyjólfsson, gjaldkeri
  • Katla Rán Svavarsdóttir
  • Guðrún Anna Guðnadóttir

 

Helstu markmið félagsins eru:

 

- bæta skógrækt á svæðinu; skapa meira skjól fyrir ofan þorpið, m.a. í tengslum við íþróttasvæðið

- búa til sk. barnareit það sem gróðursett verða tré fyrir hvert barn sem fæðist á Vopnafirði

- búa til leiktæki úr náttúruefni meðfram göngustigum í nálægð þorpsins, sbr. Kjarnaskógur

- gera Oddnýjarlund að skemmtilegu og eftirsóttu útivistasvæði

 

Úr skýrslu formanns:

 

Á sumrinu voru haldnir 4 stjórnarfundir þar sem verkefnin voru ákveðin og skipulögð.

 

Grisjað var í Oddnýjarlundi 2var í apríllok og byrjun maí með góðum árangri. Fáir félagsmenn mættu en stjórnin tók þátt. Grisjunarefnið var kurlað af Smára Valssyni Torfasstöðum sem ræður yfir stórri og öflugri kurlunarvél og er reiðubúinn að taka þetta verkefni að sér til framtíðar.

 

14. apríl var haldið málþing undir heitinu „Skógurinn skemmir útsýnið en hvað gerir hann fleira fyrir okkur?“ í Mikligarði með erindi frá fimm frummælenda: Einar Gunnarsson, Skógræktarfélag Íslands; Lárus Heiðason, Skógræktin; Guðrún Smith, Landgræðslan; Anna Berg Samúelsdóttir, umhverfisfulltrúi og Magnús Már Þorvaldsson, skipulagsfulltrúi Vopnafjarðarhrepps. Málþingið heppnaðist ákaflega vel og sótti um 20 manns.

 

Tillaga var lögð fram um að lengja stígakerfið sem nú þegar er komið við Straumsvíkina meðfram Nýps-Lóni. Else fór í því tilefni í skoðunarferð í júní með borgastjóra Ólafi Áka og Ingólfi Sveinssyni til að kanna málið. Í nýju aðalskipulagi eru tillögur að stígagerð að finna og í tengslum við verkefnið lagði Ólafur Áki til að sveitafélagið borgaði verktaka fyrir vélavinnuna.

 

23. júní var verkefnið „Líf í lundi“ haldið um land allt, líka á Vopnafirði. Við Straumseyri var tendraður varðeldur og boðið upp á ratleik í skóginum, snúbrauðsgerð, pylsugrill, spjall o.fl. fyrir gesti og gangandi. Sama dag var „Snuddutré Vopnafjarðar“ útnefnt og er myndaleg Alaskaösp skammt frá þorpinu, rétt við Hlíðaenda. Hugmyndin er að börn sem hætta að nota snuð geti hengt það á tréð.

 

Landbót sendi inn umsókn í Landgræðslusjóð Skógræktarfélags Íslands um fjármagn til umfangsmeiri grisjunar og umhirðu í Oddnýjarlundi og fékk samþykktar 500.000 kr. styrk í þau verkefni. Ákveðið var að fá verktaka, Skógarafurðir ehf, til að sinna verkefninu. Verkefnislýsing var skrifuð og verktaki vann skv. henni.

 

Gróðursetning fór fram skv. áætlun ofan þéttbýlis. Samtals voru gróðursettar 2508 plöntur 2018. Frá Skógræktarfélagi Íslands kom eftirfarandi:

 

  • Birki: 124 plöntur
  • Sitkagreni: 1000 pl.
  • Lerki (Hrymur) 124 pl.
  • Blágreni 40 pl.
  • Gulvíðir 120 pl.

 

Þetta var allt gróðursett á svæðinu fyrir ofan skjólbeltið og Sitkagreni í reitinn innan þess. Félagsmenn tóku þátt í gróðursetningu og gekk hún fljótt og vel fyrir sig. Síðan fékk félagið 1100 aukaplöntur, Alaskaösp, sem voru gróðursett í júlí með aðstoð Vopnafjarðarhrepps. Að auki var áburði dreift á allar plöntur sem voru gróðursettar 2017 og 2018 og eitthvað á tré í Straumseyralundi.

 

Else Möller, 14.02.2019
Tungumál


Skipta um leturstærð


LeitFlýtileiðir