Ferðamálasamtök verða Framfara- og ferðamálasamtök

20.03 2019 - Miðvikudagur

Ferðamálasamtök Vopnafjarðar héldu aðalfund sinn í félagsheimilinu í gærkvöldi. Í fréttabréfi samtakanna á sl. ári sagði m.a. að samtökin væru klasi, samstarfsvettvangur aðila sem starfa á sviði ferðaþjónustu að markmiði að stuðla að samvinnu ferðaþjóna á Vopnafirði við ímyndarsköpun og áframhaldandi uppbyggingu ferðaþjónustu í sveitarfélaginu. Sjálfsagt lítur hinn almenni íbúi svo á að samtökin séu einkum og sér í lagi þeirra er ferðaþjónustunni tilheyra. Á aðalfundinum fór fram lífleg umræða um stöðu félagsins, einkum með hliðsjón af tillögu fráfarandi stjórnar að breyta nafninu í Framfara- og ferðamálasamtök Vopnafjarðar. Var sú tillaga síðan samhljóða samþykkt.

 

Nú kann einhver að draga þá ályktun að nafnabreyting ein og sér skili engu, án breyttra starfshátta gerist ekkert. Þar liggur einmitt grundvöllur hugmyndar með nafnabreytingunni því ekki einungis er þörf á að hlúa betur að ferðamanninum heldur íbúum sveitarfélagsins. Það liggur í hlutarins eðli að ef íbúarnir eru ekki sáttir við hlutskipti sitt eru þeir ekki góðir gestgjafar. Spurt var m.a.: Hvað er það sem betur má fara? Hvernig má kalla fleiri að borðinu? Hvernig viljum við sjá samfélagið okkar þróast? Ferðamál hafa leitt efnahagslegan vöxt Íslands um árabil og hyggjast framfara- og ferðamálsamtökin láta einskis ófreistað að þoka Vopnafirði áfram í þeim efnum. Mikið verk er óunnið.

 

Aðalfundi var frestað til framhaldsaðalfundar síðar á útmánuðum þessa árs en ný stjórn mun gefa sér tíma til undirbúnings. Verður sá fundur auglýstur m.a. á þessum vettvangi en það er ánægjulegt að geta þess að þáttur ungs fólks óx verulega við stjórnarskiptin en eftir margra ára setu og óeigingjarna vinnu gengu úr stjórn Sigríður Bragadóttir, Árný Birna Vatnsdal og Stefán Grímur Rafnsson sem aðalmenn og Margrét Arthúrsdóttir sem varamaður. Þeim þökkuð góðs störf í þágu samtakanna. Inn koma Björn Halldórsson og Hjördís Hjartardóttir sem aðalmenn og Kristjana Louise Friðbjarnardóttir og Eyþór Bragi Bragason sem varamenn. Áfram í stjórn er Steinunn Birna Aðalsteinsdóttir.
Tungumál


Skipta um leturstærð


LeitFlýtileiðir