Ný samþykkt um stjórn Vopnafjarðarhrepps

18.06 2019 - Þriðjudagur

Samgöngu og sveitarstjórnarráðuneytið hefur staðfest nýja samþykkt um stjórn Vopnafjarðarhrepps. Breytingarnar fela fyrst og fremst í sér stofnsetningu byggðarráðs. Sveitarstjórn samþykkti breytingarnar á 24. fundi sveitarstjórnar, þann 9. maí og  ræddi áður á 23. fundi 15. apríl og 21. fundi 4. apríl. 

Byggðarráð fer ásamt framkvæmdastjóra sveitarfélags með framkvæmdastjórn þess. Í því felst m.a. að taka ákvarðanir um fjármál samkvæmt samþykktri fjárhagsáætlun sveitarfélags. Það skal sinna fjármálastjórn sveitarfélags og hafa sérstakt eftirlit með fjárstjórn þess. Það undirbýr fjárhagsáætlanir og sér um að ársreikningar sveitarfélags séu gerðir reglum samkvæmt. Byggðarráði er heimil fullnaðarákvörðun mála sem eigi varða verulega fjárhag sveitarsjóðs eða stofnana hans, enda sé ekki ágreiningur innan ráðsins, sbr. 3. mgr. 39. gr. svstjl. Byggðarráð hefur almenna umsjón með stjórnsýslu sveitarfélags, þ. á m. starfsmannamálum. Mál, sem varða uppbyggingu stjórnkerfis sveitarfélags eða hafa í einhverjum mæli víðtæka þýðingu fyrir stjórnsýslu sveitarfélags, á að taka til umræðu í byggðarráði.

Um skipan og hlutverk byggðarráðs eru sérstök ákvæði í sveitarstjórnarlögum. Það getur einnig borið heitið hreppsráð, bæjarráð eða borgarráð. Kjörgengir sem aðalmenn í byggðarráði eru aðeins aðalfulltrúar í sveitarstjórn og varamenn í byggðarráði þurfa að koma úr hópi aðal- eða varafulltrúa í sveitarstjórn.

Samþykktirnar má nálgast hér.

Nánri upplýsingar um hlutverk byggðarráð má nálgast hér.
Tungumál


Skipta um leturstærð


LeitFlýtileiðir