Vopnaskak 2019

29.06 2019 - Laugardagur

Páll Óskar, Sóli Hólm og kassabílarallí eru meðal þess sem verður á dagskrá Vopnaskaks á Vopnafirði fyrstu vikuna í júlí. Hátíðin stendur frá 4.-7. júlí og er nú haldin í 26. skipti, en fyrsta hátíðin var haldin sumarið 1994.

Undirbúningur gengur vel að sögn Selju Janthong framkvæmdastjóra hátíðarinnar, sem vonast til að sjá sem flesta gesti: „Ekki bara brottflutta heldur líka nágranna okkar úr nærsveitunum.“

Meðal gesta hátíðarinnar eru sjálfur Páll Óskar Hjálmtýsson með Pallaball og fjölmiðlamaðuruinn og eftirherman Sólmundur Hólm með uppistandið „Varist eftirhermur.“ Þá verður hið árlega Hofsball haldið og munu Hreimur úr Landi og sonum og Einar Ágúst úr Skítamóral skemmta ásamt hljómsveit Jóni Hilmars á ekta íslensku sveitaballi.

Meðal nýjunga á Vopnaskaki þetta árið er svo furðufatahlaup og kassabílarallí. „Krakkarnir sem vrou á leiklistarnámskeiði hér í bænum smíðuðu bílana sjálf og keppa á föstudeginum,“ segir Selja um síðarnefnda viðburðinn.

Áður en hátíðin sjálf hefst eru þó Vopnfirðingar hvattir til að skreyta hverfi sín í litum Einherja – appesínugulum, grænum og bláum – en karlalið Einherja keppir einmitt við Kópavogspiltana úr Augnabliki á meðan á hátíðinni stendur. Auk þess er opið til miðnættis í Selárlaug á miðvikudagskvöldið áður en hátíðin brestur á.

Fyrir aðkomugesti er svo rétt að benda á fjölbreytta gistimöguleika, á borð við Hótel Tanga og tjaldstæðið í bænum sjálfum og svo fjölda gistimöguleika í nágrenni Vopnafjarðar sem má skoða betur á Visit Vopnafjörður.

Fimmtudagur: Opið hús, kótilettur og myndir af brottfluttum börnum

Á fimmtudeginum verður Olga Helgadóttir með ljósmyndasýningu af börnum brottfluttra Vopnfirðinga í Fiskimarkaðnum og mun hún einnig sýna þar verk sín úr Þjóðleikhúsinu, þar sem hún hefur verið að mynda undanfarin ár. Sýningin stendur frá kl. 17-20 og verður einnig opin á föstudag og laugardag.

Klukkan 19 er svo kótilettuhlaðborð á Hótel Tanga og eftir það er tilvalið að mæta á uppistand með Sólmundi Hólm, sem hefst klukkan 21 og stendur til klukkan 23.

Á fimmtudeginum verður einnig opið hús fyrir börn og unglinga. Það verður opið hús í Félagsmiðstöðinni fyrir 5-7 bekk á milli 19 og 21, fyrir 8-10 bekk á milli 21-23 og eftir kl. 23 fyrir 16-18 ára unglinga.

Föstudagur: Páll Óskar, myndlistarsýning og kassabílarallí

Grunnskólakrakkar úr 1.-7. bekk verða með myndlistarsýningu í Félagsmiðstöðinni á milli 13-15 á föstudeginum og áðurnefnt kassabílarallí verður á milli 14.30-15.30 við Félagsmiðstöðina.

Furðufatahlaup fyrir alla fjölskylduna brestur svo á klukkan 16 – en gestir verða að muna að hafa samband við Selju til að skrá sig tímanlega þann 1. júlí.

Eftir það verður sápurennibraut við blokkina á milli 17 og 18.30 og um kvöldið mun Páll Óskar halda uppi stuðinu. Fyrst verða fjölskyldutónleikar á milli 20.30 og 21.15 en klukkan 23:00 hefst svo ball fyrir átján ára og eldri.

Laugardagur: Sandkastalar, Hofsball og markaðstorg

Dagskrá laugardagsins hefst með sandkastalakeppni í Sandvík kl. 12 og þegar menn hafa æst upp keppnisskapið í sandköstulunum þá er komið að Íslandsmótinu í fótbolta, en Einherji mætir Augnabliki í 3. deild karla klukkan 14 á Vopnafjarðarvelli.

Á milli 16-18 verður markaðstorgið opið, þar sem bæði heimamenn og nærsveitungar verða með ýmsan varning til sölu. Þá verður tónlist og skemmtiatriði á staðnum, sem og andlitsmálning og hoppukastali, með öðrum orðum allar helstu lífsins nauðsynjar!

Klukkan 19 verða hestvagnaferðir frá Miklagarði í súpuna, en súpukvöldið stendur frá kl. 19.30-20.30 og í lok súpukvölds verður tilkynnt hvað best skreytta hverfið var þetta sumarið.

Eftir það er komið að áðurnefndu Hofsballi, þar sem Hreimur, Einar Ágúst og hljómsveit Jóns Hilmars leika fyrir dansi frá kl. 23 og fram á nótt.

Sunnudagur: Burstafellsdagur, útiguðsþjónusta og kvöldvaka

Á sunnudaginn verður útiguðþjónusta við minnisvarðann á Þorbrandsstöðum kl. 13 og eftir hana verður Bustarfellsdagurinn haldinn á milli 14-17, en þar mun sýningarfólk sýna gestum hvernig sveitastörf voru innt að hendi í gamla daga.

Hjáleigan kaffihús verður með kaffihlaðborð um sama leyti.

Loks hefst kvöldvaka kl. 18.30 niðri á lónum, þar sem verður varðeldur, grill og brekkusöngur fyrir alla fjölskylduna.
Tungumál


Skipta um leturstærð


LeitFlýtileiðir