Ljósmyndasýning um börn hinna brottfluttu

04.07 2019 - Fimmtudagur

Nikulás Högni

Olga Helgadóttir ljósmyndari flutti frá Vopnafirði þegar hún var fimmtán ára en hefur undanfarið verið að ljósmynda börn brottfluttra Vopnfirðinga fyrir ljósmyndasýningu af börnum brottfluttra Vopnfirðinga sem verður í Fiskimarkaðnum á Vopnaskaki, en sýningin opnar í dag, fimmtudag kl. 17 - 20, en einnig verður opið á föstudag (kl. 14-17) og laugardag (kl. 14-18). Þar mun hún einnig sýna þar verk sín úr Þjóðleikhúsinu, þar sem hún hefur verið að mynda síðastliðið leikár.

En hvaðan kom hugmyndin að mynda börn hinna brottfluttu?

„Ég var að hugsa hvað mig langaði til að hafa á Vopnaskakinu, það komu ýmsar hugmyndir og meðal annars þessi. Ég bar hana undir fólk í kringum mig sem og framkvæmdastjóra hátíðarinnar og allir voru sammála um að börn brottfluttra Vopnfirðinga væri skemmtileg sýning til að fara með til Vopnafjarðar,“ segir Olga í spjalli við Vopnafjarðarvefinn.

Mikael Máni.jpgEPáll.jpgn Ósk.jpg

Er eitthvað sem einkennir börn brottfluttra Vopnfirðinga? „Þau eiga það að sjálfsögðu öll sameiginlegt að eiga rætur að rekja til Vopnafjarðar, hvort sem þau hafi búið hér sjálf eða foreldrarnir. Mörg þeirra eiga ennþá ömmur og afa á Vopnafirði og kynnast því Vopnfiskri menningu. Mér fannst mjög gaman að hitta alla aftur og sjá fólk og kynnast þeim jafnvel, marga hafði ég aldrei hitt.“

Öll börnin eiga foreldra eða ömmur og afa sem hafa búið á Vopnafirði og tengslin við ræturnar eru mikið ræktuð. „Mörg þeirra hafa verið að fara til Vopnafjarðar og það voru alveg einhver skipti þar sem ég gat ekki myndað öll systkynin af því hluti systkinahópsins var fyrir austan.“

Börnin voru allt frá 2. mánaða til 16 ára gömul og allar myndirnar voru teknar úti. „Bæði fannst mér það skemmtilegra og svo gefur það meiri fjölbreytileika en að vera lokuð inni í stúdíó. Svo er hægt að leyfa börnunum að velja aðeins. Spyrja þau: Viltu hafa tré í bakgrunninum eða viltu hafa blóm?“

En höfðu börnin sterkar skoðanir á uppstillingunni? „Sum þeirra, það er rosalega misjafnt eftir börnum. Sum þeirra vita alveg að þau vilja príla í trénu frekar en að standa á jörðinni, eða vilja vera með blóm frekar en að vera uppi í tré. Börn eru náttúrulega jafn ólík og fullorðið fólk, sum hafa sterkar skoðanir og önnur fljóta bara með fjöldanum og gera það sem þeim er sagt að gera. Það sem var svo skemmtilegt við að mynda svona stóran hóp af börnum er að þú færð svo mikla fjölbreytni, svo mikla mannlífsflóru og kynnist svo mörgum ólíkum karakterum barna. Börn eru svo skemmtileg og ef maður gefur sér tíma til að spjalla við þau og kynnast þeim, þá hafa þau svo margt að segja frá og forvitnilega upplifun á heiminum.“

Með myndavél og stílabók í leikhúsi

Undanfarið hefur Olga unnið við að mynda fyrir bæði Þjóðleikhúsið og Dansskóla Birnu Björns. En hvernig er ferlið við að mynda leiksýningu?

„Leiksýningar eru alltaf myndaðar á svokölluðu ljósmyndarennsli. Þá mæti ég á rennsli næst á undan með litla myndavél til að prófa lýsingu og rammana og stílabók, þannig er ég búin að kortleggja sýninguna áður en ég mynda hana. Þá veit ég hvaða sena gerist hvar á sviðinu og hvar er best fyrir mig að vera á þeim tímapunkti. Þú stoppar ekkert í miðri sýningu og spyrð: geturðu gert þetta aftur? Jafnvel þótt þetta sé ljósmyndarennsli sem slíkt, þá þarf sýningin að fá að klárast og hafa sitt flæði. Á ljósmyndarennslinu er leikstjórinn alltaf viðstaddur og allir þeir sem að sýningunni koma, þetta er því í rauninni alveg eins og venjulegt rennsli hjá leikurum, nema það er ljósmyndari hlaupandi í kringum þau á sviðinu,“ segir Olga og bætir við: „Svo þarf þetta allt að gerast mjög hratt. Þú vinnur myndirnar nánast á sama tíma, þarft að skila þeim kannski eftir 1-2 daga max. Ljósmyndarennsli eru oft sirka tíu dögum eða hálfum mánuði fyrir frumsýningu, því það þarf allt að vera tilbúið. Sviðsmyndin, búningar, smink, lýsing, hljóð og allt sem þarf til að gera sýningu góða. Svo þarf þetta allt að vera tilbúið fyrir kynningarefni og annað slíkt tímanlega, en eftir að ég hef tekið myndirnar þurfa þær að fara til grafísks hönnuðar til að hanna leikskrá og annað kynningarefni. Það vinna allir mjög mikið saman. En þetta er ofboðslega skemmtilegt, það skemmtilegasta sem ég geri.“
Tungumál


Skipta um leturstærð


LeitFlýtileiðir