Makríll og grálúða á sumarvertíð Granda

17.07 2019 - Miðvikudagur

Sumarvertíðin er í fullum gangi hjá útgerðarfélaginu HB Granda á Vopnafirði og bæði makríll og grálúða hafa komið í land nýlega.

„Við erum búnir að taka á móti tveim förmum af makríl. Víkingur og Venus eru búnir að koma í sitthvorn túrinn og Venus er á landleið núna,“ segir Magnús Þór Róbertsson, rekstrarstjóri hjá Granda, og bætir við: „Við erum líka búnir að vera að vinna grálúðu sem er unnin í Bolfiskhúsinu samhliða þessu,“ en Sólborgin, sem Útgerðarfélag Reykjavíkur gerir út, landaði grálúðu síðasta föstudag og aftur í dag, miðvikudag.

„Þannig að það er bara líf og fjör í þessu, þótt það mætti alveg vera meiri kraftur í veiðunum.  En ég held að þetta sé allt innan eðlilegra marka,“ segir Magnús Þór.

HB Grandi er með höfustöðvar í Reykjavík en er einnig með starfstöðvar á Akranesi og Vopnafirði. En samstarfið gengur prýðilega fyrir sig að sögn Magnúsar Þórs.

„Það gengur bara flott, eðalfólk á öllum stöðum. Það hefur alltaf gengið mjög vel.“

Alls eru um 800 ársverk unnin hjá HB Granda – en hversu stór er starfsemin á Vopnafirði? „Á Granda í Vopnafirði eru að vinna rúmlega 70 fastráðnir starfsmenn, með fiskimjölsverksmiðjunni. Það eru í kringum 60 manns í frystihúsinu og 14 í fiskimjölsverksmiðjunni.“

 Vanan lyftaramann vantar

Og það er nóg að gera á næstunni. „Það verður vonandi makríl- og síldarvertíð eitthvað fram í október og planið með grálúðuvinnslu er vinnsla áfram á grálúðu á meðan veður leyfir, þá verður unnin grálúða hérna í Bolfiskshúsinu. Svo krossum við putta að það verði loðnuverðtíð. Þannig að ef allt er eðlilegt ættu að vera einhver verkefni í haust og vetur,“ segir Magnús Þór.

En er nóg af starfsfólki – er kannski ástæða fyrir áhugasama að sækja um? „Það er mjög erfitt að komast á sjó. En núna hefur verið sumarvertíð hjá okkur, núna í júlí, ágúst og september, þá er frekar að okkur vanti fólk heldur en hitt.“

Skýringin liggur í því að vertíðin hefur færst aftur á árinu og er núna eiginlega sumar- og haustvertíð. „Það er að fækka umsóknum af því að vertíðin hefur aðeins færst aftur á sumarið, þetta er orðin það stuttur tími fyrir krakka sem eru að fara í menntaskóla og ná þá kannski bara rúmum mánuði,“ segir Magnús Þór og segir að þetta þýði að þau geti væntanlega bætt við sig fólki.

„Þetta er orðið aðeins erfiðara fyrir okkur og í raun vantar okkur fólk á sumarvertíðina frekar en hitt. Þetta svona rétt sleppur eins og er. Þannig að ef þú veist um einhvern lyftaramann ...“

 
Tungumál


Skipta um leturstærð


LeitFlýtileiðir