Vopnafjörður í byggingargátt Mannvirkjastofnunar

23.07 2019 - Þriðjudagur

Grunnur vallarhússisn sem nú rís. Byggingarleyfið var það síðasta sem gefið var út með gamla laginu.

Vopnafjörður hefur í samvinnu við Mannvirkjastofnun opnað aðgang fyrir íbúa sína í byggingargátt Mannvirkjastofnunar, en byggingargátt er rafrænt gagnasafn og skráningakerfi sem einfaldar umsóknarferli byggingarleyfa og er samtengt fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands. Markmið gáttarinnar er að gera ferlið skilvirkara og einfaldara, samræma og styrkja byggingaeftirlit á landinu öllu og ná fram samræmdum upplýsingum um framleiðslu í byggingariðnaði á  hverjum tíma, allt frá útgáfu byggingarleyfis. Í gögnum frá Mannvirkjastofnun kemur fram að mannvirkjagerð sé atvinnugrein sem velti milljörðum króna á Íslandi á ári hverju og þar ríki mikil samkeppni. Byggingargáttinni sé ætlað að tryggja að þar sitji allir við sama borð og eftirlitið sé samræmt og fyrirsjáanlegt.

Eins felast í þessu mikil þægindi og einföldun fyrir alla aðila að sögn Sigurðar Jónssonar byggingafulltrúa Vopnafjarðar. 

„Þegar þú ferð inná „mínar síður“ á síðu Mannvirkjastofnunar þá kemur strax upp möguleikinn á að sækja um byggingarleyfi. Þar sækir þú svo bara um leyfið. Þú getur sótt um þetta með íslykli eða með rafrænum skilríkjum. Þegar þú gerir þetta þá þarft þú ekki að fylla út neitt um þig lengur,“ segir Sigurður – og er það ólíkt því sem áður var. „Á þessum eyðublöðum eru alls konar reitir þar sem þú þarft að fylla út nafn og heimilisfang og símanúmer og tölvupóstföng og allt slíkt, en þarna er skráningin um þig til bara til og kerfið veit að þetta ert þú, af því þú ert að fara inn á þínum rafrænu skilríkjum. Þegar þú ert kominn þarna inn geturðu valið að sækja um byggingarleyfi og þar koma eignirnar sem þú átt upp, þar sem þú getur sótt um byggingaleyfi.“

En hvað er svo næsta skref? „Þarna sækja menn um byggingarleyfi, þeir velja sér hönnunastjóra þarna, af þeim sem hafa réttindi til þess, og svo tekur hann bara við þegar hann er kominn með aðgang. Þarna setur hann inn gögnin sem hann er að vinna, setur inn tyfningar, fylgiskjöl og skráningartöflu og annað slíkt og þegar það er komið þá er hægt að senda inn umsókn um byggingaleyfi,“ segir Sigurður.

Þetta þýðir að sá sem er að byggja getur haft mun betri yfirsýn yfir ferlið allt.

„Sá sem er að byggja hefur á einum stað upplýsingar um allt sem gerist. Hann veit hvenær, hvaða dag og klukkan hvað hönnunarstjórinn sendir allt inn. Þarna er umsókn um byggingarleyfið send inn, þarna er það samþykkt og þá kemur það inn í gáttina. Þá er hægt að fara að velja byggingarstjóra og iðnmeistara úr hópi þeirra sem hafa réttindi og þegar þeir eru teknir til starfa þá koma inn úttektir og eigandinn sér allt á þessum stað. Þarna liggja uppdrættirnir og önnur gögn, þannig að eigandinn getur fylgst vel með þarna.“

Kerfið hentar litlum sveitarfélögum sérstaklega vel að sögn Sigurðar. „Sum sveitarfélög, stór sveitarfélög, eru með dýr kerfi, þjónustugáttir, og þá eru menn held ég dálítið mikið að spekúlara hvað gerist með kerfið þeirra. En með minni sveitarfélög eins og Vopnafjörð, sem hafa ekki verið með dýr umsýslukerfi, þá er komið mjög gott kerfi fyrir þau. Þetta er svolítið hugsað þannig að það hafa allir aðgang að þessu, en fyrir litlu sveitafélögin er þetta einfaldlega eitthvað sem þau geta notað en stóru sveitafélögin eru jafnvel að smíða viðbætur sem geta tengt kerfin saman, þeirra eigin og gáttina.“

Allir sitja við sama borð 

En hvað er næsta skref? „Næsta skref, sem er ekki alveg tilbúið, er að tengja þetta við gagnagrunn tryggingafélaganna. Þá detta út aðilar sem eru ekki með tryggingar. Þannig að þú þarft ekkert að vera að spá um hvort þú ert að tala við einhvern sem er með tryggingu eða ekki. Kerfið á að sjá um það að ef þú ert með tryggingu skráða hjá tryggingafyrirtæki ertu „grænn,“ sumsé með leyfi, ef að þú ert ekki með tryggingu verður einfadlega ekki hægt að velja þig.“

Þegar hefur verið sótt um tvö leyfi í gegnum gáttina á Vopnafirði í þennan mánuð sem gáttin hefur verið opin, annað hefur verið samþykkt og hitt er enn í vinnslu, og það eru fleiri byggingaleyfi í farvatninu að sögn Sigurðar sem er ánægður með nýja kerfið.

„Þetta er til þægindauka fyrir alla aðila, þarna eru allir aðilar tengdir á einu svæði. Þegar búið er að opna fyrir hönnunarstjórann sér hann þetta, hönnuðurinn hefur aðgang að þessu, byggingastjórinn hefur aðgang að þessu, eigandinn sér þetta alveg frá byrjun. Þannig að menn eru bara að fylgjast með í beinni á netinu hvernig gögnin koma inn gagnvart umsókninni. Þarna bara sérð þú þetta allt saman. Þannig að ef það er t.d. búið að lofa þér að það verði send teikning og það er ekki að standast þá verður þú að taka upp símann eða senda þínum manni póst. En þetta gerir ferlið léttara og leiðir þig áfram.“

Þá þýðir þetta að allir spila eftir sömu leikreglum. „Það verður ekki spurning hvort byggingafulltrúinn á Vopnafirði sé með þetta eitthvað öðruvísi en byggingafulltrúinn í Kópavogi eða Reykjavík, það eru allir að vinna þetta eins. Eitt markmið með gáttinni er að koma í veg fyrir að menn séu að taka einhverjar geðþóttaákvarðanir með að gera mismunandi kröfur. Núna eru bara ákveðnar kröfur og það eru þær sem lögin ákveða.“

Finna má nánari upplýsingar um rafræn byggingarleyfi á heimasíðu hreppsins. Einnig er hægt að skoða nánari leiðbeiningar á þessu Power point skjali og í þessu skýringarmyndbandi.
Tungumál


Skipta um leturstærð


LeitFlýtileiðir