Einherji ósigraðir í átta leikjum

08.08 2019 - Fimmtudagur

Þegar 15 umferðum er lokið í 3. deild karla í knattspyrnu situr Einherji í fimmta sæti deildarinnar með 23 stig. Liðið byrjaði tímabilið illa en er taplaust í síðustu átta leikjum og hefur gengið vel að sækja sigra á útivelli undanfarið, þótt jafnteflin séu óþarflega mörg heima á Vopnafirði.

„Liðið kom seint saman eins og oft áður, þannig að það var dálítið erfitt að stilla liðið saman fyrsta mánuðinn eða svo. Það bjarta í þessu er að við höfum verið að sækja stig á útivelli sem hefur ekki verið tilfellið undanfarin ár, en á móti kemur að heimavöllurinn hefur ekki verið jafn sterkur,“ segir Bjartur Aðalbjörnsson fyrirliði.

 

Sem dæmi um hve seint liðið kom saman kom Trínídadinn Akim Armstrong, sem er spilandi þjálfari liðsins, ekki til liðs við liðið fyrr en daginn fyrir fyrsta leik og sama gilti um tvo samlanda hans sem einnig hafa spilað með Einherja í sumar. „Þetta er fínn náungi,“ segir Bjartur um þjálfarann og bætir við: „Þetta er kannski ekki sá fótbolti sem hentar þeim best, þessi íslenski bolti, þeir eru ekki vanir honum. Umboðsskrifstofan hans hafði samband við Einherja og sótti um og þetta var í raun bara spurning um að taka ákvörðun mjög snögglega í vor. Svo er hann með Víglund Pál með sér, sem er rosa gott fyrir liðið, enda maður með mikla reynslu.“

einherji.jpg

Bjartur er ekki viss hvað veldur þessu basli á heimavelli, þar sem liðið hefur vissulega ekki tapað nema einum leik en gert ansi mörg jafntefli. „Það vantar kannski bara að ná upp einhverri stemmningu hér heima aftur, kannski er komin einhver pressa á að ná stigum heima þar sem við höfum staðið okkur svo vel þar undanfarin ár.“

 

En hvernig finnst gestaliðunum að heimsækja Vopnafjörð? „Flestum finnst mjög gaman að koma á alvöru útivöll og Vopnafjarðarvöllur hefur verið þekktur fyrir það í gegnum tíðina að vera algjört vígi að koma á. Óþolandi áhorfendur og ógeðslega erfitt að spila hérna. Á meðan á leik stendur eiga þeir mjög erfitt með áhorfendur og andstæðinga, þessi lið sem eru að koma, það er ýmislegt skemmtilegt sem fer á milli áhorfenda og aðkomuliðana.“

 

En hvernig hefur gengið að fjármagna reksturinn? „Á veturna reynum við sem erum heima að standa í ýmsu og yngri flokkarnir líka. Það eru fastir þættir eins og happdrætti. Svo er áheitasöfnun á vorin, þar sem fólk heitir á hvert stig, og svo erum við náttúrulega með sterka bakhjarla,“ segir Bjartur en bætir við að þetta sé töluvert hark.

 

„Auðvitað eru ekki miklir peningar og menn eru bara að borga mikið sjálfir, það hefur komið fyrir að menn hafa verið að borga gistingu sjálfir og mat á ferðalögum og æfingagalla og svoleiðis. Það er bara þannig að það eru ekki mikilir peningar í þessu.“

 

Einherji tryggði sér sæti í 3. deild árið 2013 eftir sigur í 4. deildinni og það er nokkuð ljóst að þeir munu hefja sitt sjöunda tímabil í deildinni næsta vor, þar sem 13 stig eru í fallsæti og 12 stig í annað sætið. Liðið er því á svipuðum slóðum og það endaði síðastu tvö ár, sæti ofar sem stendur – en hvert stefnir Einherji í framtíðinni?

 

„Fyrsta verkefni stjórnar í haust er að festa menn niður fyrir næsta sumar. Hvert haust er bara svo stórt spurningamerki, hverjir verða með og hverjir ekki. Viljinn núna er, eins og svo oft áður, að fá þetta á hreint sem fyrst svo liðið verði fullmótað í janúar eða febrúar, en ekki í maí. En þetta er ellefta tímabilið mitt núna og við erum ennþá í þriðju deild. Auðvitað vilja menn fara að taka skrefið upp.“

 
Tungumál


Skipta um leturstærð


LeitFlýtileiðir