Vopnfirska framhaldsskólaútibúið: aukaár í heimabyggð

02.09 2019 - Mánudagur

Framhaldsskóladeildin á Vopnafirði er nú að hefja sitt fjórða starfsár og eyddu nemendur fyrstu dögunum í Framhaldsskólanum á Laugum, þar sem þau tóku fyrstu dagana í smá hópefli, en svo byrjaði kennsla heima á Vopnafirði núna í dag, mánudaginn 2. september.

 

Bjarney Guðrún Jónsdóttir, umsjónarmaður námsins, segir fjöldann svipaðan og undanfarin ár, en í vetur verða fjórir nemendur í deildinni – en þeir hafa verið á bilinu 3-6. „Skólaárið lítur svo mjög vel út fyrir Framhaldsskólann á Laugum, það er meiri aðsókn þar heldur en hefur verið í mörg ár, það er að koma mjög stór hópur nýnema sem breytir öllu hjá mér, af því þegar þau koma á Laugar eru fleiri krakkar og meira um að vera í heimsóknunum.“

 

Eftir að framhaldsskólinn var styttur í þrjú ár hafa nemendur geta tekið fyrsta árið á Vopnafirði. „En það er stundum þannig að nemendur eru kannski að taka upp úr tíunda bekk og hafa kannski ekki náð viðmiðum fyrir framhaldsskóla, þá gætu þau í raun verið hér í tvö ár, fyrra árið til að ná viðmiðunum og svo fyrsta árið í framhaldsskóla. En við förum ekki með þau lengra í framhaldsskólanáminu vegna þess að þá erum við oft komin í áfanga sem eru á hærra stigi, með meiri verklega kennslu og annað slíkt, sem hentar kannski síður fyrir þetta form, því þau eru ekki í tímum, fá bara þessa kennslu í gegnum tölvu og slíkt,“ segir Bjarney.

 

En hvernig er hefðbundinn dagur hjá fjarnemunum? „Við mætum yfirleitt klukkan átta og erum til svona hálfþrjú á daginn, með matartíma. Við byrjum yfirleitt daginn á að skipuleggja dagskrána, því við erum ekki með fasta stundatöflu. Það er ekki bara á mánudögum íslenska, svo stærðfræði og svo framvegis. Laugaskóli er að vinna með kerfi þar sem þú ert bara með tvo fagtíma á viku, þeir eru yfirleitt sex, en svo ertu með svona vinnustofukerfi. Það virkar þannig að þú ert í vinnustofu og getur þá bara valið hvaða fagi þú vinnur í. Þá geturðu dreift þessu svolítið, kannski þarftu að eyða meiri tíma í stærðfræði heldur en ensku og svo framvegis.“

 

Þannig byrja þau yfirleitt daginn á að skoða hvað það er sem þarf að skila og í hverju nemendurnir þurfa að vinna. „Stundum skipulegg ég það, sérstaklega ef ég ætla að taka til dæmis stærðfræði með þeim uppi á töflu, þá skipulegg ég tíma fyrir það, suma aðra daga leyfi ég þeim algjörlega að ráða skipulaginu.“

 

Oftast enda þau svo daginn á að fara í íþróttir. „En það er ennþá vertíð og þá hefur skólinn gefið leyfi fyrir því að við styttum skóladaginn aðeins hjá þeim, svo þau geti farið í áframhaldandi vinnu. Þá fara þau í vinnu á milli kl. 14-20. En það er háð mjög ströngum skilyrðum um að þau séu að sinna náminu. Og þau hafa svolítið valið þetta sum. Þá ná þau að vinna sér inn svolítinn pening, en þá eru þau frá átta til átta, það er alveg tólf tíma vinna. En þetta er réttlætanlegt af því þetta er bara tímabundið og það geta komið stopp á milli og allavega,“ segir Bjarney um skipulag námsins.

 

Hvernig hefur samstarfið við Framhaldsskólann á Laugum gengið? „Bara mjög vel, það er alltaf rosalega gott að koma þangað og okkur er vel tekið. Krakkarnir smella vel inn, þau ganga beint inní það sem er í gangi á Laugum og það er vel tekið á móti þeim. Við erum eina viku í mánuði og við reynum alltaf að stíla á þessa stóru viðburði, þegar það er árshátíð eða tónkvísl, þá erum við hér á Laugum. Þannig að þau hafi kost á að taka þátt í öllum stærstu félagslegu viðburðum sem eru haldnir innan skólans.“

 

Eru þau flest að fara í Laugaskóla í framhaldinu? „Það hefur verið þannig, þangað til í fyrra að þau dreifðust meira. En þetta er hugsað þannig að þau geti tekið fyrsta árið heima á Vopnafirði en geti svo farið hvert sem er eftir það.“


Námið hefur lítið breyst í þessi fjögur ár að sögn Bjarneyjar. „Eitthvað smávægilegt sem ég hef komið með, svo er bara misjafnt hvernig hóp þú ert með, en grunnhugmyndin er ennþá sú sama. Ég reyni líka að tala svolítið fyrir þessu á Vopnafirði, en auðvitað er það stundum þannig að þú hefur ekki annan kost en að fara eitthvert annað. En það er rosa gott að hafa þennan möguleika að hafa krakkana heima einn vetur í viðbót.“

 

En það hlýtur að vera krefjandi að kenna þetta fjölbreytta námsefni á framhaldsskólastigi? „Ég bý ekki til kennsluefni anna, faggreinakennararnir gera það, þau setja inn námsefnið, þau gera verkefnin, þau semja prófin, og ýmislegt annað. Ég er eiginlega bókasafnskennarinn sem þú getur leitað til með allt. En þetta var ekkert auðvelt fyrsta veturinn, ég var að hjálpa til í stærðfræði og þýsku og ensku og líffræði og sögu og íslensku og öllu hinu,“ segir Bjarney og tekur fram að samstarfsfólk hennar við Laugaskóla hafi verið mjög hjálplegt.

 

„Kennararnir eru duglegir að kynna verkefnin og annað slíkt fyrir mér. En maður þarf að vera dálítið á tánum og setja sig inní hlutina. En þetta er auðveldara núna heldur en það var fyrst, því ég er í rauninni að kenna sömu greinarnar. Það fór ótrúlega mikill tími í það fyrsta veturinn að fara yfir efnið, þá tók ég allt námsefnið sjálf líka. Þá notaði ég líka vikurnar þegar ég var sjálf á Laugum til að hitta kennarana og mæta í tíma til að setja mig betur inní fögin,“ segir Bjarney sem sjálf er menntaður íþróttakennari og hefur einnig lært sérkennslufræði.

 

„Maður hefur ótrúlega gott af þessu, ég hef alltaf verið ágætlega sleip í stærðfræði og fannst mjög gaman að fara að kenna hana, fara að reikna aftur. Ég var hins vegar ekkert brjálæðislega spennt fyrir þýsku en maður lærir rosalega mikið sjálfur. Svo eru náttúrulega breyttir tímar og það er ótrúlega auðvelt að fá upplýsingar og finna alls konar efni sem gæti hentað hverjum og einum.“

 
Tungumál


Skipta um leturstærð


LeitFlýtileiðir