Íslandsmeistaratitill og landsliðssæti hjá Einherjastelpum

18.09 2019 - Miðvikudagur

4. flokkur kvk

 

Íslandsmeistaratitill og landsliðssæti hjá Einherjastelpum

einherji1.jpg

Nú þegar knattspyrnusumarið er senn á enda þá er ekki úr vegi að heyra hvernig yngri flokkum Einherja hefur gengið í sumar. Við heyrðum í Sigurði Donys Sigurðssyni, sem auk þess að vera reynslubolti í meistaraflokksliði félagsins er aðalþjálfari yngri flokka og byrjuðum á að forvitnast um hvernig kvennaliðunum hefði gengið í sumar og hvort útlit væri fyrir að meistaraflokkslið kvenna yrði endurvakið á næstunni.

Það hefur gengið mjög vel í sumar,“ segir Sigurður og rekur svo gengi liðanna. „Við erum með starfandi 3. og 4. flokk kvenna sem eru að taka þátt í Íslandsmóti. 3 flokkur er í 11 manna bolta og 4 flokkur er í sjö manna bolta, þar sem við erum að nota 4 og 5 flokk saman, og þær urðu Íslandsmeistarar í knattspyrnu,“ segir Sigurður um liðið sem fór taplaust í gegnum leiki við Álftanes, Leikni R., Njarðvík og K.F./Dalvík.

„Svo vorum við í úrslitaleikjum um að fara upp í A-deild í 3 flokki kvenna. Við lentum á móti Haukum og töpuðum þeim leik en þær stóðu sig frábærlega þar. Þar erum við að nota stelpur fæddar á milli 2006 og 2003.“

Einherji hefur nokkuð reglulega keppt á Íslandsmóti kvenna en var ekki með í ár. En miðað við velgengnina í yngri flokkunum, má þá búast við meistaraflokksliði kvenna megin á næstunni? „Það er rosalega mikið af efnivið, alveg niður í fimmta flokk og upp í þriðja flokk, en þær eru bara ennþá svo ungar, ég held það verði ekki meistaraflokkslið á næsta ári en hugsanlega á þarnæsta ári – ef við höldum öllum þessum stelpum. En svo er spurning hversu góðar okkar stelpurnar eru og hvort þær fara og taka næstu áskorun, taka næsta skref, fara í betra lið eða eitthvað slíkt. Það er alltaf spurning hvað við höldum mörgum. Margar fara líka burt í menntaskóla.“

Þá hefur góður hópur stúlkna verið að fara í landsliðsúrtök undanfarin misseri. „Síðustu þrjú árin hafa stelpur frá okkur verið að fara suður í úrtakshóp og afreksþjálfun og það er alveg ótrúlegt að þetta litla félag eigi alltaf stelpur þar, með stóru liðunum eins og Breiðabliki og Stjörnunni,“ segir Sigurður og hefur trú á sínum stelpum, en í ár var Kamilla Huld valin í 30 stúlkna úrval U-15 ára stúlkna, ein Austfirðinga.

„Það er mikill metnaður í þessum stelpum, þær ætla sér lengra. Auðvitað vill maður halda stelpunum en ég býst alveg við að þær taki næstu áskorun líka. Svo getum við bara vonandi búið til ákveðinn kjarnahóp af okkar stelpum. En eins og ég hef alltaf sagt við Vopnfirðinga: Það á að vera stolt Vopnfirðinga að geta sagt: þessi stelpa eða þessi strákur spilar í Úrvalsdeildinni og kemur frá Vopnafirði. Það er mikill sigur þótt það sé alltaf gaman að halda úti liði.“

 Einherji 2.jpg

Og hver er stefnan fyrir næsta sumar? „Ég reikna með að það verði þriðji flokkur kvenna hjá okkur á næsta ári og við erum strax farin að setja okkur markmið um að fara upp um deild. Við ætlum bara að fara upp í bestu deildina.“

 

Á morgun birtum við svo grein um yngri flokka karla hjá Einherja.
Tungumál


Skipta um leturstærð


LeitFlýtileiðir