Efnilegir Einherjar

19.09 2019 - Fimmtudagur

Efnilegir Einherjar

Við heyrðum í Sigurði Donys Sigurðssyni, aðalþjálfari yngri flokka hjá Einherja, og spurðum hann út í gengið í sumar. Í gær þá spjölluðum við um kvennaliðin en nú er röðin komin að strákunum.

 

Það eru töluvert færri strákar að æfa en stelpur og þá má helst finna í yngstu flokkunum.  „Við erum með sjöunda og sjötta flokk karla, sjöundi flokkur er blandaður, og við höfum verið að taka þátt í mótum þar. Keppum á þremur mótum yfir sumartímann og það snýst meira um leikgleði heldur en að hugsa um úrslit og bara frábært að vera með alveg frá yngstu flokkunum. Áttundi flokkur er líka kominn inn, nýkomin af leikskólanum og að fara að byrja í 1. bekk.“

 

En eru einhverjir fyrrum lærisveinar eða -meyjar hans að spila í efstu deild núna? „Nei, ekki ennþá. Við eigum fullt af strákum sem hafa verið að spila í 1 eða 2 deild. Það vantar ekki Vopnfirðingana en maður skilur að þeir vilji taka stærri áskorun og koma sér lengra í þessu. Markmiðið er alltaf að halda úti yngri flokka starfi hjá þessu félagi. Að vera með visst marga hópa þannig að Einherja sé flaggað alls staðar á mótum og vonandi gengur það upp að halda þessum krökkum áfram í þessu starfi.“

 

Sumir árgangar eru þó ansi fámennir og þá eru málin oft leyst með samstarfi við nágrannaliðin. „Það er rosalega gott fyrir okkur að geta leitað austur til að komast í samstarf. Ég var að ræða þetta við Egilsstaðabúa, bæði liðin í þriðja flokki kvenna eru að fara í úrslitaleik, en ef við hefðum búið til tvö góð lið hefðum við kannski farið alla leið í þessari keppni,“ segir hann og bætir við: „En það er fámennara hjá strákunum, við erum í vandræðum þar, við erum ekki að koma nógu mörgum strákum upp. Það er bara einn strákur sem er að spila með þriðja flokk. En hann er gríðarlega efnilegur, hefur verið í afreksþjálfun og verið að spila með Fjarðarbyggð og þeir fóru í úrslitaleik um að komast upp um deild, sem þeir töpuðu því miður.“

 

Sigurður lofar samstarfið en í öðrum flokki karla er Einherji hluti af samstarfsliðinu Austurland. „Samstarfið gengið ótrúlega vel. 2. flokkur Austurland er mjög mikilvægt fyrir þessa stráka sem eru 16, 17 eða 18 ára, svo þeir fái leiki. Þegar þú ert 16, 17 ára ertu að bíða eftir því að fá tækifæri hjá meistaraflokki og menn eru mis þolinmóðir með bíðina. Þess vegna er nauðsynlegt að hafa 2. flokk Austurlands fyrir þá og það hefur gengið vel, við höfum verið að senda 4-5 stráka. En svo fer vonandi að koma að því að við Vopnfirðingar notum þessa stráka í meistaraflokk. Við erum með töluvert af aðkomumönnum í liðinu okkar, en við eigum fullt af Vopnfirðingum annars staðar og það væri gaman að sækja þessa stráka og spila þeim ef þeir eru tilbúnir í það.“

 

En taka öll þessi ferðalög sem slíku samstarfi fylga ekkert á? „Við höfum nú aldrei sett vegalengdirnar fyrir okkur. Þegar við erum að fá lið á Vopnafjörð, sérstaklega úr bænum, þá er það alltaf lengri leiðin, lengra fyrir þá að koma til okkar en við til þeirra. En við keyrum bara ef við þurfum þess til að koma börnunum okkar í það sem þau vilja vera í. Það hefur aldrei verið neitt vandamál hjá okkur, við erum hvort eð er það langt út úr að við þurfum alltaf að keyra.“

 Einherji5.jpg Einherji7.jpg

En hvernig gengur Sigurði sjálfum að samþætta spilamennskuna og þjálfunina? „Það er búið að taka rosalega á, en það gengur ótrúlega vel upp, ég er náttúrulega með góða stjórn bak við mig og við púslum þessu saman fyrir sumarið og reynum að láta þetta ganga upp. En maður finnur núna að það er kominn september og tankurinn er orðinn ansi tómur. Nú er bráðum að koma smá frí frá þjálfuninni og svo fer fótboltinn að verða búinn. Mann þyrstir alveg í frí, enda hafa allir gott af því að taka frí frá hverjum öðrum. En þetta hefur gengið ótrúlega vel upp. Stundum hefur maður verið að þjálfa leik hjá krökkum eldsnemma á morgnana og svo er ég að fara að undirbúa mig fyrir næsta leik fyrir sjálfan mig strax eftir það. Og maður yngist ekkert, þetta er búið að ganga upp svona í átta ár. En núna er ég að taka gráður hjá KSÍ og er að fara núna til Danmerkur og taka A-gráðuna og þeir spyrja bara: ertu ennþá í þessu? Þeir spyrja mig alltaf sömu spurningarinnar.“
Tungumál


Skipta um leturstærð


LeitFlýtileiðir