Kaffispjall og boccia á opnu húsi eldri borgara

21.10 2019 - Mánudagur

Opið hús fyrir eldri borgara hefur verið haldið í félagsheimilinu Miklagarði á þriðjudags- og föstudagsmorgnum frá kl 10 -12 undanfarnar vikur. Boðið er uppá kaffi og spjall og hægt er að kíkja í blöðin. Einu sinni í mánuði er súpa og brauð í boði fyrir vægt verð og það er alltaf hægt að ganga í salnum eða spila boccia.

„Mætingin hefur verið mjög góð og ný andlit í hvert skipti. Það eru svona 16-22 manns að mæta og aldurinn er 65 ára og eldri. Þau elstu að verða 85 ára held ég,“ segir Þórhildur Sigurðardóttir sem hefur umsjón með opnu kvöldunum og átti hugmyndina. 

„Ég get talað um þetta endalaust því þetta er svo frábær hittingur og þetta minnkar einangrun fólks,“ segir hún um verkefnið og segir marga hlakka mikið til. „Það er mikil stemning, þau eru komin tíu mínútum áður en þetta byrjar, til að komast inn. Þau fara oft í boccia, eru búin að gera boccia-völl, og um daginn var Þjóðleikhúsið með sýningu fyrir leikskólann og þegar sýningin var búin kíktu leikararnir í súpu til okkar og spjölluðu við okkur og borðuðu súpu og allir voru mjög ánægðir með það.“

 

Það hafa fleiri góðir gestir kíkt í heimsókn. „Við fengum Kristjönu frá Austurbrú í spjall því fólki langar að vita hvað er að gerast í bænum.  Else skógfræðingur kom og spjallaði við  okkur um göngustígana í bænum og eru þau með heilmiklar skoðanir á því hvernig göngustígarnir eiga að vera.“ Og fleiri gestir eru væntanlegir. „Sveitarstjórinn ætlar að koma og hitta þau og einnig rekstarstjórinn hjá Brim. Svo höfum við talað um að fá leikskólabörnin í heimsókn.“

 

Bókaklúbbur og bátamyndir í framtíðarplönunum

 

En hvernig kviknaði hugmyndin? „Ég var að klára nám sem tómstunda- og félagsmálafræðingur og var að taka við þessu nýja starfi sem verkefnastjóri í frístundum og hluti af náminu mínu var vettvangsnám í föndrun hérna hjá eldri borgurum og það voru ekki nema 10-12 sem voru að mæta þar. Ég fór að skoða málið og sá að það voru 160 manns hérna sem eru 65 ára og eldri og af þeim voru svona fáir að mæta. Og ég vissi að það eru margir orðnir svolítið einangraðir, finnst pínu öðruvísi að fara í Sambúð, sem er félagsmiðstöð eldri borgara,“ segir Þórhildur.

 

„Þarna kom hugmyndin, svo var ég líka að spjalla við tvær konur sem eru um 85 ára gamlar og þær voru að tala um að þær vantaði stað til þess að labba þegar það er hálka, hvort það væri ekki hægt að fá far út í Miklagarð. Þetta þróaðist út frá því.“

 

Í framhaldi fór hún að ræða hugmyndina betur við fleiri og fékk góðar undirtektir. „Svo talaði ég við Ágústu frá Refstað, sem er formaður eldri borgara, og talaði við tómstundafulltrúann, við ákváðum að vinna þetta saman, þannig að það er yfirleitt alltaf einhver á staðnum, ég er eiginlega alltaf, en ef ég dett út þá passa þær að önnur hvor þeirra sé með fólkinu.“

 

Hvernig eru svo framtíðarplönin? „Við ætluðum bara að byrja rólega en það er áhugi fyrir því að vera með bókaklúbb og þau hafa verið mikið í myndagrúski og varðandi það kom upp sú hugmynd að vera með bátana og merkja gömlu miðin í firðinum. Þetta er bara það sem þau ræða, og líka hvað þau gera úti í Sambúð. Þar heldur starfið okkar oft áfram, úti í Sambúð þar sem allt annað starf eldri borgara er og þar sem þau eru með sitt félagsstarf“

 

Og þótt hún sé umsjónaraðilinn þá er stefnan að eldri borgararnir fái að ráða meiru. „Þau eru með ýmis plön um hvað þau langar að gera og ég sit yfirleitt bara og hlusta og þau segja mér hvað þeim langar að gera. Þetta er bara eitthvað sem er að þróast og við erum að gera það sem við getum. Um daginn gerðum við svona áhugasviðskönnun og ég ætla að athuga hvort ég geti búið til einhverja hópa út frá því,“ segir Þórhildur að lokum.

 
Tungumál


Skipta um leturstærð


LeitFlýtileiðir