Sjóðsfélagar Stapa á Vopnafirði fá leiðréttingu

29.10 2019 - Þriðjudagur

Vopnafjarðarhreppur sér til þess að enginn starfsmanna hreppsins bíði tjón vegna vangreiddra iðgjalda en krefst þess áfram að Stapi lífeyrissjóður axli sinn hluta ábyrgðar á mistökum fyrri ára.

Sveitarstjórn Vopnafjarðarhrepps hefur ákveðið að tryggja að starfsfólk sveitarfélagsins, sem vegna mistaka fékk um ellefu ára skeið of lága greiðslu á mótframlagi í lífeyrissjóðinn Stapa, verði jafnsett öðrum sjóðsfélögum. Deila hefur staðið um það hvar ábyrgðin liggi á því að of lágt iðgjald var greitt frá árinu 2005 til 2016. Viðræður við sjóðinn hafa engum árangri skilað til þessa. Sveitarfélagið ákvað að axla strax sinn hluta ábyrgðarinnar í von um að sjóðurinn gerði slíkt hið sama. Það hafi hann ekki gert. „Til að koma launþegum í skjól í þessu máli gerir því sveitarfélagið tjónið upp að fullu. Það er þó enn skýr afstaða sveitarstjórnar Vopnafjarðarhrepps að Stapi lífeyrissjóður beri hluta ábyrgðar í málinu og mun því sækja skaðabætur til sjóðsins fyrir dómstólum vegna þeirra mistaka sem áttu sér stað við innheimtu iðgjaldanna,” segir Þór Steinarsson, sveitarstjóri.
Tungumál


Skipta um leturstærð


LeitFlýtileiðir