Vopnfirðingasaga: hefnd og peningagræðgi

30.10 2019 - Miðvikudagur

Vopnfirðinga saga er nýkomin út og boðað verður til útgáfukaffis þann 3. nóvember í Félagsheimilinu Miklagarði. Við ræddum af því tilefni við þau Ásu Sigurðardóttur íslenskufræðing og kennara, sem samdi formála og orðskýringar, og Ragnar Inga Aðalsteinsson sem ritstýrði útgáfunni.

 En hvað er það sem heillar við Vopnfirðinga sögu? „Það er nú margt. Þetta er góð saga, mögnuð og góð saga. Hún fjallar um það hvernig græðgin getur farið með fólk,“ segir Ragnar Ingi um helstu þemu sögunnar, sem fjallar meðal annars um hvernig græðgin getur eyðilagt góða vináttu.

 „Þeir voru bestu vinir, þeir Brodd-Helgi og Geitir, máttu hreinlega ekki af hvorum öðrum sjá. Þangað til þeir fremja þetta níðinsverk að drepa Hrafn austmann til að ná peningunum hans. Textinn um morðið á Hrafni er mjög flottur, maður les milli línanna að auðvitað voru það þeir sem gerðu þetta eða stóðu á bak við þetta.“

 En áætlanir þeirra félaga ganga ekki upp. „Svo ætla þeir að ná peningunum og það mistekst. Þá fara þeir að kenna hvor öðrum um og verða alveg vitlausir og enda sem óvinir – og enda svo báðir lífið í þeim slag. Þetta er siðferðisboðskapur sögunnar, það eru peningagræðgin og siðblindan sem fer með menn.“

 En hvernig var samstarfinu háttað? „Ása skrifaði formálann og vann orðskýringar og kaflaheiti og fleira og var búin að ganga frá þessu að miklu leyti. Ég kom svo inní þetta og las yfir eins og alltaf er gert, kom með nokkrar tillögur. Svo skrifaði ég eftirmála. En Ása á heiðurinn af þessu verki og hún gerði þetta mjög vel. Hún á formálann og það eru Vopnfirðingar sem eiga heiðurinn af þessari útgáfu að öllu leyti.“

Að horfa út um gluggann

 En hvernig byrjaði þetta allt saman? „Þetta byrjar eiginlega með hópi sem var saman á námskeiði hérna og fékk mig til að lesa með þeim söguna. Þar kviknar hugmyndin að gefa þetta út í bók eins og þessari,“ segir Ása og segir þau upphaflega hafa verið að hugsa um menningartengda ferðamennsku.

 „Fyrsta skrefið var eiginlega að þetta ætti að vera eitthvað fyrir ferðamenn. Sem þetta er orðið líka, við erum komin með hugmyndir að alls konar skiltum og gönguleiðum sem tengjast sögunni, höfum hannað kort og fleira. Þannig að þetta var dálítið ferðamannatengt í upphafi og er það ennþá að einhverju leyti,“ segir Ása um aðrar aukaafurðir útgáfunnar.

 Nærvera söguslóða skipti miklu máli. „Hún gerist hérna í nærumhverfinu, við getum horft yfir sögusviðið nánast úr stofuglugganum. Svo tekur hún á öllu þessu helsta úr Íslendingasögunum, eins og heiðrinum, hefndinni og ærunni. Það er bara sérstaklega gaman að lesa um eitthvað sem er svona nálægt, þar sem maður getur heimsótt sögustaðina auðveldlega.“

 Ása vinnur einnig sem kennari í Vopnafjarðarskóla og þar hefur sagan vakið lukku. „Ég les þetta með unglingadeildinni í skólanum og það er afskaplega gaman að geta horft út um gluggann og liggur við bent þeim á helstu sögustaði. Og þeim finnst þetta skemmtilegt. Þau hafa gaman af að lesa söguna og virðast tengja ágætlega við hana, sérstaklega því þau þekkja þessa helstu bæi eins og Krossavík og Hof, þar sem helstu sögupersónurnar eru.“

 Vinnan með unglingunum skilaði sér svo við vinnu á handritinu. „Ég tók bara orðskýringar sem mér fannst þurfa og sem ég upplifað í lestri með unglingunum til dæmis; hvaða orð hef ég þurft að skýra þar? Í formálanum er ég svo dálítið að tala bara út frá mér og minni upplifun í tengslum við þessa bók.“

 

Skemmtilegt fólk og vel að sér

 En hvað getur Ragnar sagt okkur um útgáfuna sjálfa? „Þetta er upprunaleg stafsetning, textinn er nákvæmlega eins og hann er í því handriti sem stuðst er við. Textinn er tekinn af Snerpu og sá texti er soðinn saman úr bestu handritunum.“

 En ákveðna hluti er hvergi hægt að finna lengur. „Það vantar raunverulega hápunkt sögunnar, þegar Brodd-Helgi er drepinn. En Jón Jóhannesson gerði mjög vandaða útgáfu af Vopnfirðingasögu á sínum tíma, sem er í Austfirðingasögum. Þar gerir hann þessu skil og mér fannst það eiginlega vera það gott að það er ekkert hægt að betrumbæta það, þannig að ég tók það bara upp og vísa þar í útgáfuna hans Jóns. Þar segir hann hvað líklegast hafi staðið í upprunalega textanum. Ég setti það bara neðanmáls og vísa þar í Jón.“

 En er mikilvægt að vera kunnugur staðháttum? „Það er náttúrulega ekkert hægt að gera þetta nema vera kunnugur staðháttum. Ég fór til Vopnafjarðar í ágúst, Pétur Ingólfsson fór með mér og sýndi mér allt. Ég hef komið í Vopnafjörð áður en hef aldrei skoðað þessa sögustaði út frá þessu. Síðan var ég í sambandi við hann, Pétur í Teigi og auðvitað Ásu. Ég var bara að ritstýra verkefninu og koma því í endanlega höfn,“ segir Ragnar sem ber Vopnfirðingum vel söguna.

 „Ég var stanslaust í tengslum við heimamenn, það er ekkert hægt að vinna þetta öðruvísi. Þetta fólk gjörþekkir söguna og þekkir staðhættina og gat sagt mér frá fornleifauppgreftrinum og öllu þessu. Þannig að þeirra hlutur er stór í þessu. Það er líka svo gaman að vinna með Vopnfirðingum. Skemmtilegt fólk og vel að sér og gott að leita til þeirra. Ég hringdi stanslaust í þá og þeir voru ekkert nema þolinmæðin að svara mér.“

 En eru líkindi með Vopnfirðingum þá og nú? „Þetta er snúin spurning. En ég varð ekki nokkurs staðar var við frekjuna úr Brodd-Helga. Hún hefur horfið fyrir löngu. Brodd-Helgi var bölvaður yfirgangsseggur en svo kemur fram í sögunni að Bjarni sonur hans er allt öðruvísi. Strax þá eru þessi frekjugen eitthvað farin að gefa eftir, strax í öðrum lið, þannig að það er ekki von að lítið sé eftir af þeim í dag.“

 Meðal annarra sem koma að útgáfunni eru Berghildur Fanney Hauksdóttir, sem hafði verkefnisstjórn með fyrstu áföngum, Pétur Behrens gerði teikningar og ljósmyndir tók Jósep H. Jósepsson. Sigmundur Breiðfjörð Þorgeirsson gerði kort og um umbrot sá Aðalsteinn Svanur Sigfússon. Umsjón með útgáfu fyrir hönd stjórnar Söguslóða Austurlands höfðu Baldur Pálsson og Unnur B. Karlsdóttir. Styrki til verkefnisins veittu Uppbyggingarsjóður Austurlands og Vopnafjarðarhreppur. Loks var bókin prentuð í Litlaprenti.

VopnfirðingasagaBaksíða.jpg
Tungumál


Skipta um leturstærð


LeitFlýtileiðir