Varað við veðri

07.01 2020 - Þriðjudagur

Starfsfólk veðurstofu hefur varað við slæmri veðurspá næsta sólarhringinn og næstu daga fyrir allt landið.

Um kl.08:00 í morgun var norðaustan hríð, 15-23 m/s og lélegt skyggni á Vestfjörðum og við Breiðafjörð og versnandi akstursskilyrðum.

Þá telur fagfólk veðurstofu að vestan/suðvestan áttin komi með hvell inn á Faxaflóa og Suðurnes og Suðurland um kl.15:00 í dag með rigningu/slyddu í fyrstu en síðan él og hríðarveður um kvöldið .

Búast má við takmörkuðu skyggni, skafrenningi og versnandi akstursskilyrðum og samgöngutruflunum.  Hvassast verður í vesturhluta borgarinnar en mest ofankoma verði í efribyggðum.

Vestmannaeyjar fá einnig suðvestan hvassviðri eða storm um kl.14:00 í dag sem áætlað er að gangi svo niður í fyrramálið.

Sama á við um Strandir og Norðurland vestra/Norðurland eystra og Austurland að Glettingi en þar verður Suðvestan 18-25 m/s og mjög snarpar vindkviður við fjöll.

Þá er þónokkur snjókoma kortum á þessum svæðum. Austfirðir fá þessa hvössu suðvestan átt svo yfir sig í kvöld.

Á Suðausturlandi er spáð vestan hvassviðri eða stormi og mjög snörpum vindkviðum og þá helst í Mýrdal og í Öræfum. Þar er útlit fyrir rigningu/slyddu í fyrstu en síðan stöku él í kvöld og nótt. Ekkert ferðaveður er á miðhálendinu.

Raforkufyrirtæki/fjarskiptafyrirtæki eru í viðbragðsstöðu ef þörf verður á aðgerðum.

Fólki er bent á að fylgjast með veðurviðvörunum:

https://www.vedur.is/vidvaranir 

https://www.vegagerdin.is/

https://www.vegagerdin.is/ferdaupplysingar/faerd-og-vedur/allt-landid-faerd-kort/

Spáin fram á morgundag hljóðar svo:

Vestlægur 15-23 m/s, með staðbundnum vinstrengjum að 30-35 m/s. Ökumenn fari varlega og íbúar tryggi lausamuni utandyra. Snýst síðan í hvassviðri eða storm á morgun, 15-25 m/s. Varasamt fyrir ökutæki sem taka á sig mikinn vind einkum í Mýrdal og Öræfum. Útlit fyrir rigningu eða slyddu í fyrstu, en síðan él og hríðarveður um kvöldið og nóttina. Fólki er bent á að fylgjast með veðurviðvörunum https://www.vedur.is/vidvaranir
Tungumál


Skipta um leturstærð


LeitFlýtileiðir