Vegna samkomubanns og takmarkana stjórnvalda

16.03 2020 - Mánudagur

Í dag hófst samkomubann á Íslandi vegna Covid-19 veirunnar og hafa stjórnendur Vopnafjarðarhrepps verið að vinna að útfærslu viðbragða- og aðgerðaráætlana miðað við þær upplýsingar sem okkur hafa borist í ljósi þess.


Í dag, mánudaginn 16.mars, er starfsdagur í leikskólanum og skólanum og íþróttahúsið er einnig lokað og munum við leggja línurnar fyrir tímann fram að páskum. Mesta áskorunin er lögð á herðar skólanna tveggja en mikilvægt er að allar stofnanir tileinki sér vinnubrögð í samræmi við útgefnar takmarkanir á samgangi.
Í aðgerðaáætlunum leitum við leiða til þess að minnka líkur á því að heill vinnustaður þurfi að fara í sóttkví. Margt er hægt að gera til að minnka líkurnar á því að smitið taki samtímis til margra starfsmanna eða allra starfsmanna sem sinna sömu verkefnum. Samkomu- og samgangstakmarkanir ásamt tveggja metra reglunni minnka líkur á hópsmitum.
Áfram hvetjum við íbúa Vopnafjarðarhrepps til að fara að öllu eftir fyrirmælum fagfólks okkar og reglum sem settar hafa verið hjá Almannavörnum en huga samt að andlegri og líkamlegri heilsu og hafa jákvæðnina í fyrirrúmi.
Hér fyrir neðan eru helstu upplýsingar um hverja stofnun fyrir sig listaðar upp:

Leikskólinn Brekkubær verður opinn á hefðbundnum tíma næstu vikurnar eftir því sem aðstæður leyfa. Starfsemi og leikskólahaldið verður með öðru sniði vegna aðstæðna.

Þeir foreldrar sem geta haft börnin sín heima eru vinsamlegast beðnir að leggja sitt að mörkum á þessum álagstímum og hafa börnin heima eins og kostur er eða sækja fyrr ef hægt.

Foreldrar eru hvattir til að fylgjast með nýjustu upplýsingum í tölvupósti.

 

Vopnafjarðarskóli

Engar verkgreinar og engin íþróttakennsla á tímabilinu nema útikennsla

Hópar blandast ekki í skólanum og tryggt að aldrei séu fleiri en 20 börn í sama rými á sama tíma

Gæsla í skóla bara fyrir þá sem nauðsynlega þurfa

Bókasafn Vopnafjarðarhrepps er með hefðbundinn opnunartíma.

Íþróttahús Vopnafjarðarhrepps verður með skertan opnunartíma þar til annað kemur í ljós og falla þar með allir hópatímar í sal niður ásamt því að tækjasalur verður með skertan opnunartíma. Tækjasalurinn verður opinn með því sniði að einstaklingar bóka sér tíma í tækjasalinn og verður fjöldatakmörkun í salinn. Þetta er gert til að tryggja þrif á milli notkunar tækja.
Sturtur, búningsklefar, ljósabekkur og gufa verður lokað á meðan samkomubanninu stendur. Þetta er gert til að fyrirbyggja smit þar sem íþróttahúsið er með marga snertifleti og er aðalsamkomuhús bæjarins.

Íþróttatímar í skóla falla niður í íþróttahúsinu á meðan samkomubannið er í gildi en útikennsla verður iðkuð í staðinn. Einnig falla niður tímar Einherja hjá yngriflokkum inni í sal.

Hvetjum fólk til að hreyfa sig heima eða utandyra eins og kostur er til á meðan þessu stendur.

Sundlaugin verður opin með hefðbundnu sniði þangað til annað verður sérstaklega tilkynnt.  

Félagsmiðstöðinn Drekinn fylgir starfsreglum skólans og verða einhverjar breytingar á starfseminni vegna þessa. Fylgist með á Facebook síðu Drekans. 

Félagsstarf eldri borgara fellur niður tímabundið frá og með 13. mars eins og áður var auglýst.

Vopnafjarðarhreppur og félag eldri borgara á Vopnafirði vilja með því leggja sitt af mörkum til að sporna við útbreiðslu veirunnar hjá þeim hópi sem er viðkvæmastur fyrir henni.

Hjúkrunarheimilið Sundabúð er nú lokað fyrir heimsóknum ættingja og annarra gesta vegna COVID-19 veirunnar og verður lokað þar til annað verður tilkynnt.

Vinsamlegast hringið í síma 473-1320 ef þið viljið fá samband við starfsfólk eða íbúa hjúkrunarheimilisins

Áhaldahús og skrifstofa Vopnafjarðarhrepps: Starfsemi með óbreyttu sniði en íbúar eru vinsamlegast beðnir að lágmarka heimsóknir sínar á skrifstofuna eins og kostur er og nota þess í stað síma eða tölvupóst þurfi þeir á þjónustu eða upplýsingum að halda. Símanúmerið á skrifstofunni er 473-1300 og tölvupóstfangið er skrifstofa@vopnafjardarhreppur.is.

Einherji

Samkvæmt tilmælum ÍSÍ, munu allar yngriflokka æfingar Einherja falla niður vikuna 16.-22.mars og verður staðan endurmetin mánudaginn 23.mars . Stjórn Einherja telur mikilvægt að fara varlega og eftir tilmælum stjórnvalda, landlæknis og yfirmanna íþróttarhreyfingarinnar. Stjórn félagsins mun nýta vikuna i að safna upplysingum um hvernig hægt sé að hátta starfinu komandi vikur.

Hvetjum foreldra til að fylgjast með á heimasíðu Einherja.

 

Ekkert skipulagt barna- og safnaðarstarf verður í Hofsprestakalli á meðan samkomubann er í gildi þar sem erfitt er að halda því úti með þeim reglum sem liggja fyrir frá yfirvöldum. Aðrir viðburðir sérstaklega auglýstir.

 

Hvetjum foreldra til þess að fylgjast vel með heimasíðum leik- og grunnskóla og tölvupósti varðandi nýjustu upplýsingar.

Einnig bendum við íbúum á að kynna sér málin vel á heimasíðu Landlæknis, www.landlaeknir.is og á www.covid.is.

 

Saman komumst við í gegnum þetta eins og allt annað og munum að lóan er komin til landsins, vorboðinn ljúfi 😊

Samkomubann - Vopnafjarðarhreppur
Tungumál


Skipta um leturstærð


LeitFlýtileiðir