Afhjúpun minnisvarða við Þorbrandsstaði

11.07 2011 - Mánudagur

Í gær, sunnudaginn 10. júlí, var minnisvarði um systkinin þrjú sem drukknuðu í svo kölluðum Berjabolla skammt frá Þorbrandsstöðum og landi bæjarins. Um er að ræða einn hinn sorglegasta atburð í sögu Vopnafjarðar en ekki þarf að fara mörgum orðum um hvílíkur voðaatburður þetta var, á útmánuðum ársins 1910, nánar tiltekið 16. maí. Börnin sem létust hétu Sigrún 11 ára gömul, Hjördís 9 ára og Gestur 8 ára en foreldrar þeirra voru Þórður Þórðarson og Bergljót Gestsdóttir bændur á Þorbrandsstöðum.

Athöfnina annaðist sr. Brynhildur Óladóttir og las Pétur Jónsson skrif bróður síns, Grétars, af þessum voðaatburði.

Um atburðinn skrifar Grétar Jónsson m. a.:

Á annan í hvítasunnu vildi það hörmulega slys til, að þrjú börn þeirra hjóna Þórðar bónda Þórðarsonar á Þorbrandsstöðum í Vopnafirði (bróður séra Einars á Bakka) og konu hans Bergljótar Gestsdóttur, systur frú Sigrúnar, konu Stefáns Eiríkssonar hins oddhaga, drukknuðu í krapablá, örskammt frá bænum.

 

Heima á bænum var svo ástatt, er sorgarleikur þessi gerðist, að Árni hreppstjóri Steinsson á Brúnavík í Borgarfirði austur, náfrændi húsmóður, kom í kynnisför til frændfólks síns þar, um miðja aðfaranótt 2. dags hvítasunnu, og svaf vært fram eftir um morguninn. Móðirin hafði fært börnin í hátíðaklæðin og sagt þeim frá komu frænda þeirra, og má geta nærri, hvort börnin hafi ekki hlakkað til. Elstu börnin þrjú, Sigrún 11 ára gömul, Hjördís 9 ára og Gestur 8 ára, gengu út að leika sér um morguninn, og með þeim systir þeirra, er Þóra heitir, nokkru yngri.

 

Að litlum tíma liðnum kom Þóra ein til baka, en   engum datt annað í hug, en að hin börnin væru einhversstaðar að leikum í grennd við bæinn.  En þegar gestur fjölskyldunnar, Árni í Brúnavík, vaknar, hyggst húsfreyja að sýna honum börn sín,  svipast hún eftir þeim, en finnur hvergi; fara síðan fleiri að leita; faðir húsfreyju, bændaöldungurinn Gestur Sigurðsson, nágrannabóndinn Einar Helgason í Teigi o. fl., en finna ekki. 

 

En á meðan þeir eru á brottu, reikar móðir barnanna, húsfrú Bergljót, upp á melkamb, sunnan við bæinn; sér hún þá ofan á höfuð Hjördísar litlu, í bolla einum fullum af krapi; þykist hún þá vita hvers kyns sé. Snýr heim til bæjar, nær í  karlmennina, sem þá voru heim komnir, og segir þeim hvernig komið var. Fer síðan allt fólkið upp að bollanum; en afi barnanna, Gestur Sigurðsson, nær þar upp úr krapinu tveim þeim yngri en elsta barnið, Sigrún, var sokkin, og náðist ekki lík hennar, fyrr en krapabláin hafði verið rist fram.

 

Börnin hafa víst leikið sér þarna oft áður, og hafa að líkindum í þetta sinn rennt sér niður eftir fönn, er var sunnan við bollann, en hvítur íshroði hefur legið yfir þessum afarfátíða feigðarhyl og þau þess vegna ekkert óttast.  Alveg óvenjulega nærgöngult má það vera fyrir móðurina, að þurfa að draga þrjú efnileg börn sín upp úr krapablá, öll saman dáin.  Beiskjublandin hefir hvítasunnugleðin verið foreldrum hinna látnu systkina, afa og ömmu, og annara ástvina í þetta sinn.
Tungumál


Skipta um leturstærð


LeitFlýtileiðir