Þórunn oddviti í viðtali mánaðarins í Sveitarstjórnarmálum

17.01 2012 - Þriðjudagur

Oddviti Vopnafjarðarhrepps, Þórunn Egilsdóttir, er í viðtali mánaðarins í 11. tbl. tímariti Sveitarstjórnarmála á árinu 2011 og er bæði fróðlegt og skemmtilegt aflestrar. Í öndverðu viðtalinu gerir Þórunn, borgarstúlkan, grein fyrir ástæðu þess að hún varð Vopnfirðingur fyrir býsna mörgum árum eða allt frá því að stúlkan var tvítug. Er hún því löngu orðin Vopnfirðingur og hefur ekki lent í því sama og heimildarmaður, staddur á sviði Miklagarðs á sjómannadagsgleði það herrans ár 2002, reynandi að halda uppi því sem kalla má stuði.

 

Eitthvað gekk brösulega að kalla fram bros á varir Vopnfirðinga svo hugaður sagði ritari: „Sagt er að taki 30 ár að verða Akureyringur, er vitað hvað það tekur langan tím að verða Vopnfirðingur?“ Um stund mátti heyra saumnál detta uns gellur utan úr sal: „Ef hann er jafn djöfull leiðinlegur og þú tekur það heila eilífð ...!“ Hefur aldrei hvarflað að þeim sama að kalla sig Vopnfirðing síðan enda eilífð býsna langur tími en þetta er innskot sem varð að fá að fljóta með.

 

Í viðtalinu rekur Þórunn mikilvægi uppbyggingar sveitarfélagsins á hafnaraðstöðunni, sem ráðist var í til að liðka fyrir öflugra atvinnulífi. Sýndi sig að ráðamenn sveitarfélagsins veðjuðu á réttan hest og forráðamenn útgerðarfyrirtækja sáu kost þess að flytja starfsstöð á staðinn. Með tilkomu HB Granda hf. skapaðist aðstaða fyrir stöðugt atvinnulíf á Vopnafirði en um 120 manns munu hafa unnið hjá félaginu á sl. sumri. Þar á meðal hópur ungmenna og er það mikil breyting frá því sem áður var. Hefur uppbyggingin tryggt atvinnuástandið í sveitarfélaginu og forðað fólksflótta. Kveðst Þórunn ekki vilja leiða hugann að því hefði ekki komið til hafnaruppbyggingar.

 

„Í Vopnafirði er öflugur búskapur og mörg afleidd störf skapast af honum. Til dæmis má nefna að afrakstur af loðdýrum staðarins skapa 80-90 milljónir króna í útflutningstekjur á ári. Af öðrum atvinnufyrirtækjum í Vopnafirði má nefna sláturhús en þau eru ekki mörg eftir í landinu“: Sláturhúsið keyptu bændur fyrir tveimur áratugum og því hefur Þórður Pálsson stýrt allar götur síðan, af festu og áræðni. Jákvæður viðsnúningur hefur orðið í sveitinni þannig að ungt fólk er að setjast að og hefja búrekstur.

 

Segir Þórunn að í þorpinu sé rekin ágæt verslun, drifin áfram af einstaklingi. Þó vegir batni og leiðir styttist, t. a. m. til Egilsstaða er lagt að fara eftir mjólkurlítra og brauði. Þjónustan er býsna góð. „Hér er til dæmis bílaverkstæði og byggingafyrirtæki, góðir iðnarðarmenn, hársnyrtistofur, málningarvöruverslun, sjoppa, kaffihús og hótelrekstur, sem er nauðsynlegur vegna vaxandi ferðaþjónustu“.

 

Segir Þórunn baráttuna fyrir opinberum störfum ætíð til staðar en sveitarfélag sem skaffar til samfélagsins 7-8 milljarða á ári hefur orðið að berjast fyrir að halda hér lækni og lögreglu. Því fari fjarri að Vopnfirðingar séu ölmusufólk á framfæri einhvers annars eins og stundum heyrist talað um hina og þessa staði á landsbyggðinni.

 

Segir oddvitinn Vopnfirðinga búa vel með hærra hlutfall menntaðra kennara og leikskólakennara en víða þekkist á landsbyggðinni en sem verkefnisstjóri Þekkingarnets Austurlands veit Þórunn hvaða möguleikar bjóðast í gegnum fjarnám sem dæmi. Hafa konur einkum verið duglegar að nýta sér menntunarmöguleikann. Búið sé vel að eldra fólki hafandi sjúkra- og elliheimili en sem kunnugt er kostaði allmikla baráttu til að halda því hér. Meðal annars vegna hins fremur einhæfa atvinnulífs er mikilvægi fjölbreytts félags- og menningarlífs jafnvel enn meira en ellegar væri og sem betur fer hefur Vopnfirðingum auðnast að vinna vel úr sínum málum.

 

Hjá því verður ekki komist að nefna þá byltingu sem átt hefur sér stað í samgöngumálum en ekki er talið nema í mánuðum síðan Vopnfirðingar komust í nútímavegasamband með hinum glæsilega vegi um Vesturárdalinn. „Nú get ég farið að heiman á Egilsstaði að morgni, tekið flugið suður og farið til baka og alla leið heim um kvöldið ef ég þarf á fund eða sinna öðrum erindum í Reykjavík eins og títt er um þá sem eru í forystu í sveitarstjórnarmálum eða atvinnulífi á landsbyggðinni“.

 

Samgöngubótin hefur áhrif á samfélagið allt, þar með talið ferðaþjónustu. Stofnaður hefur verið ferðamálaklasi í þeim tilgangi að stilla saman strengi þeirra sem starfa í þessum málum. Möguleikar Vopnfirðinga eru ýmsir þegar að ferðamálum kemur og nefnir Þórunn Bustarfell sem fyrsta dæmið en þetta safn er jú einstakt í sinni röð. Múlastofa er annað setur sem vekur athygli ferðalangsins en að sjálfsögðu verður aldrei litið framhjá laxveiðiánum en innan skamms verður nýtt veiðihótel risið skammt frá Selá. Náttúra Vopnafjarðar er á margan hátt sérstök og þar eru möguleikar til staðar.

 

Þórunn segir engan bilbug vera að finna á Vopnfirðingum, landsbyggðin eigi mörg tækifæri en það sem heimamanna að nýta þau. Ýmsir erfiðleikar hafa steðjað að, Vopnfirðingar eins og margir aðrir íbúar landsbyggðarinnar búa í verðlitlum eignum en ástæða til að leggjast í vonleysi er ástæðulaus. „Ég finn fyrir þeirri breytingu að þrátt fyrir einslita atvinnumöguleika sér unga fólkið ákveðna framtíð hér og ég held að þessi aukna bjartsýni stafi einkum af því að við búum við sterkar grunnstoðir og betri möguleika til menntunar en áður“, segir Þórunn að lokum og eru prýðisgóð lokaorð.
Tungumál


Skipta um leturstærð


LeitFlýtileiðir