Make It Happen – að afloknu málþingi

28.09 2012 - Föstudagur

Menningarmálafulltrúi Vopnafjarðar var þátttakandi í ráðstefnunni Make It Happen, Láttu það gerast, í 2 daga, megindaga málþingsins og hafði ánægju af enda í boði athyglisverðir fyrirlestrar fólks sem kann sannarlega til verka. Fleiri fulltrúa átti sveitarfélagið á ráðstefnunni. Á því leikur ekki nokkur vafi að um heim allan er að finna fólk sem er að gera afburða hluti án þess að það fari hátt, fólk sem hefur framtíðarsýn og skynjar að haldi fram sem horfir mun okkur stafa hætta af innan fárra áratuga – mannskepnan er að ganga að jörðinni dauðri láti hún ekki af núverandi athöfnum sínum. Á þetta minnti einn fyrirlesara, Halldór Gíslason, Dóri, prófessor við KHiO, Kunsthögskolen í Osló, og þó sá sem þetta ritar hafi leyft sér að lyfta brúnum leikur ekki nokkur vafi á að hann fer með rétt mál. Það er tími til að láta hlutina gerast og láta Móður Jörð njóta vafans!

 

Það er markvert að hlýða á mann á borð við Max Lamb, húsgagnahönnuð í London o. fl., Learning by doing, Lært með athöfnum, sem kosið hefur að leita uppi samfélög sem ekkert eiga nema hugvitið. Eða fremur fólk innan tiltekinna samfélaga sem hafa ekki aðgang að öðru en höndum sínum og höfði og eru að skapa nytjahluti eins og húsgögn, gangstéttahellur o. þ. h. Menntaður hönnuðurinn kýs að fara um heiminn, sem Dóri gerir einnig og hefur um árabil unnið í Mósambik, og kynna sér verkkunnáttu þessa fólks og miðla af þekkingu sinni. Þessir menn hafa sagt efnishyggjunni stríð á hendur og leita einfaldari lausna á þörfum mannsins og er rétt að við öll stöldrum við og áttum okkur á að fram getur ekki haldið sem horfir. Getum við Íslendingar t. a. m. með einhverjum hætti móttekið 2 milljónir ferðamanna/ár eins og forseti lýðveldisins gerði að umtalsefni á hátíð einhverri á vegum Icelandair nýverið þegar þess er gætt að helstu ferðmannastaðir landsins þola vart meiri áníðslu miðað við óbreyttar aðstæður. Einmitt, við komum aftur og aftur að mengd á móti gæðum, quantity versus quality, líkt og mikið var rætt á málþinginu - fæst allt með fjöldanum eða er vænlegra að fá færri og verja þannig land vort?

 

Erik Bugge frá Vesterålen, faðir samvinnu Vesterålen og Austurlands eins og Signý Ormarsdóttir er móðir þess sagði Vesterålen horfa upp á fækkun íbúa þar sem einkum er það unga fólkið sem snýr ekki aftur – hljómar það kunnuglega? Hins vegar er unnið að því með öllum tiltækum ráðum að snúa þróuninni við, er sveitarstjórnarfólk meðvitað um stöðu mála og vinnur skv. því með menningargeiranum. Golfstrauminn eigum við sameiginlegan með Vesterålen og sá straumur færði okkur saman. Karen og Lene frá Borgundarhólmi, Bornholm, greindu frá því stórmerkilega starfi sem fram fer innan hreyfingarinnar ACAB, Arts and Craft Association Bornholm, en með ákveðnum skilyrðum uppfylltum á fólk rétt á inngöngu í samfélag þeirra. Á sama tíma og ferðamönnum hefur fækkað sem sækir Borgundarhólm heim en um aldamót var fjöldinn um 900 þúsund/ár, að afloknu hruni 200 þúsundunum færri, hefur gestum fjölgað um 25% og á sl. ári velti ACAB tæplega 27 DKK eða tæplega 600 milljónir íslenskra króna. Það er vel gert af hópi handverksfólks en samtökin eru viðskiptamiðuð um leið og sköpunin ræður ríkjum.

 

Hægt væri að taka hvern þann sem erindi flutti á ráðstefnunni, t. a. m. var einkar athyglisvert að hlýða á þær Körnu og Láru Vilbergsdóttur um Samfélag í þróun, Þorpið, en mikil gerjun á sér stað innan þess félagsskapar og komast færri að en vilja. Hefur tíðindarmanni verið lofað heimsókn fulltrúa þessa ágæta hóps innan tíðar. Vert er að minna á það glæsilega handverk sem þar er unnið og er til sýnis í Sláturhúsinu – og hvetja fólk til að líta þar inn, alveg til fyrirmyndar. Ekki verður hjá því komist að minnast á afar athyglisvert erindi Daniel Byström iðnhönnuðar frá Svíþjóð en hann sem formaður samtaka slíkra á Norðurlöndum kemur hann víða við og hafði frá mörgu að segja; mýmörgum verkefnum sem hann tengist, stórum og smáum og sannaðist enn á ný að ótrúleg gerjun á sér stað allt í kringum okkur.

 

Við lok ráðstefnunar í gær, þ. e. fyrir utan vinnustofuna sem er í gangi í dag undir handleiðslu Daniels hins sænska, ávarpaði tíðindamaður sem menningarfulltrúi sveitarfélags síns samkunduna. Byrjaði á þakka fyrir hið athyglisverða málþing, vegförina í gegnum hvern fyrirlesturinn af öðrum, sýningar þær sem heimsóttar voru og þá listamenn sem að auki þáttakendur fengu færi á að kynnast. Sagði hann að ekki væri það fyrir tilviljun að ráðstefnugestum skyldi hafa verið stefnt á Stöðvarfjörð, 150 manna byggðarlag, því þar hafa komið sér fyrir framúrskarandi listafólk, Rósa Valtingojer og Zdenek Patak, og óháð samfélaginu ætti sér stað mikil sköpun. Hvort það væri ekki einmitt mergurinn málsins, allt byggðist þetta á sköpunarkrafti einstaklinganna þó sveitarfélögin gætu lagt lið með ýmsum hætti. Hvort málið varðaði ekki innviði sveitarfélagsins, hversu móttækilegir íbúar þess væru.

 

Voru þau til svars, Lára Vaff, sem sagði fulltrúa Þorpsins á leið til okkar innan tíðar, það væri sannarlega til fólk sem gæti fært sveitarfélaginu eitt og annað í formi sköpunar; Dóri Gísla sagði Rímur og rokk vera dæmi um þá sköpun sem ætti sér stað auk listasmiðja ungmennana og Erik Bugge tók undir með báðum – sköpun ætti sér stað þó hún færi kannski ekki hátt dags daglega en fyrst og síðast yrði menningarfulltrúinn að finna einhvern eða einhverja sem væru nógu „brjálaðir“ að taka hugmyndir sínar og kýla þær áfram. Svo nú er ekki annað eftir en að leita brjálæðingana uppi og aðstoða þá við að koma sér af stað …

 

Fleiri myndir af ráðstefnunni munu birtast síðar hér á síðunni.
Tungumál


Skipta um leturstærð


LeitFlýtileiðir