Vopnfirðingar eignast nýtt útilistaverk

09.07 2013 - Þriðjudagur

Föstudaginn 04. júlí sl., þegar Vopnaskak stóð sem hæst var afhjúpaður minnisvarði, varða, Vopnfirðinga sögu á sérvöldum stað í landi Hofs í Hofsárdal. Með afhjúpun listaverksins hafa Vopnfirðingar eignast nýtt útilistaverk og eru að því leyti til auðugri en áður. Hönnuður verksins er Magnús Már Þorvaldsson, menningarfulltrúi sveitarfélagsins, en vann verk sitt til hliðar við starf sitt og má leiða að því líkum að hann færi sveitarfélaginu verkið að gjöf fyrir tilstyrk Vestur-Íslendingsins Stefan Guttormsson og HB Granda hf. Er hér með komið á framfæri þakklæti til stuðningsaðila verkefnisins, sem á upphaf sitt að rekja til námskeiðs í menningartengdri ferðaþjónustu á vegum Þekkingarnets Austurlands, sem nú er hluti af Austurbrú, veturinn 2009-2010. Var Magnús í hópi góðra félaga, sem öll unnu tiltekið verkefni, sem hluta lokaverkefnis, undir handleiðslu kennara síns, Ásu Sigurðardóttur. Umsjón með námi fjölvirkjahópsins, svo sem hann kaus að nefna sig réttilega, hafði Þórunn Egilsdóttir. Varðaði lokaverkefnið Vopnfirðinga sögu.

 

Ferlið teygir sig yfir 3 ár en með því að skipta með sér verkum, þar sem einn nemandinn vann að gerð bæklings (Cathy), samantekt örnefna (Baldur H., Pétur J. og Jósep J.), búningahönnun (Björg E. og Sigríður Br.), leiðsögn um Vopnfirðinga söguslóðir (Ágústa Þ.) og í hlut Magnúsar kom að vinna að hönnun vörðu fyrir söguna. Nánast frá upphafi varð til sú hugmynd sem raungerð var síðar og stendur nú í Hofslandi en öll hugmyndavinna, efnisval og stýring verkefnis var hönnuðar. Sverð og skjöldur skyldi vera stál sem látið yrði ryðga og enda myndi slík áferð fremur tengjast fornri sögunni en gljáfægt stál. Lykilatriði við hönnunina var undirstaðan, sem skyldi vera myndarleg hella og bein skírskotun til hellu þeirrar er Brodd-Helgi á Hofi smeygði í brók sína fyrir bardagann við Svart – og kom sannarlega að góðum notum.

 

Vinnuteikningar voru á tilteknum tímamótum unnar, fyrst í maí 2010 en endurnýjaðar í október 2011 þar sem sverðið var bæði hækkað og breikkað, m. a. fyrir ábendingar Ólafs Ármannssonar. Smíði verksins var í höndum Bárðar Jónassonar, sem er ákaflega snjall verkmaður og vann verk sitt í fullu samræmi við það. Næstu mánuði lá stálið utan húss þar sem það fékk að ryðga en í millitíðinni var steinn/hella fundinn/fundin og komið fyrir á plani Bíla og véla. Til þess að stöðva ryðferlið varð að finna efni til að lakka flötinn með, hönnuður var sannfærður um að það verk gæti Pólýhúðun á Akureyri unnið en þó þeir hefðu ekki reynslu af viðlíka verki leystu þeir verk sitt af stakri prýði.

 

Staðarval miðaðist allan tímann við Hof þar sem meginþungi sögunnar fer fram, alla vega er þáttur Brodd-Helga svo fyrirferðamikill að hönnuður hafði hann í huga allt ferlið. Það kom í hlut Ágústu Þorkelsdóttur að vinna textann á ½ skjaldar, útdrátt sem tengdist Brodd-Helga og Hofi. Cathy Josephson yfirsetti til enskrar tungu. Teikn á Akureyri vann síðan að gerð textans fyrir Skiltagerð Norðurlands, sem skar hann í þykkt plast og kom á skjöldinn. Það var sameiginleg ákvörðun hönnuðar og Tómasar Einarssonar hjá Skiltagerðinni, að setja á skjöldinn ryðfría stálhnappa hnappa, sem mynda eina skraut verksins. Á verkstæði Bíla og véla kom varðan aftur þar sem borað var í steininn samkvæmt fyrirmælum hönnuðar, listaverkinu komið í holuna og steypt í með þansteypu. Síðan tók Mælifell ehf. við verkinu og flutti á bíl Steineyjar á vettvang þar sem hola hafði verið grafin, í hana sett púkk ásamt drenlögn og vörðunni komið á sinn stað.

 

Við afhjúpun verks ávarpaði Signý Ormarsdóttir, menningarfulltrúi Austurlands, gesti, sagði það mikið gleðiefni að Vopnfirðingar væru að eignast nýtt listaverk og enn betra að það yrði til þess að styrkja þá í viðleitni sinni við uppbyggingu ferðaþjónustunnar. Menningarlegt gildi verksins væri öllum ljóst. Gaf Signý síðan Ásu Sigurðardóttur orðið. Í upphafi þakkaði Ása það traust sem henni væri sýnt með því að fá að afhjúpa þetta listaverk og vék síðan námi fjölvirkjahópsins en það kom í hlut Ásu að leiða námsþáttinn, Hagnýt íslenska, svæðisbundin saga og menning, þar sem texti Vopnfirðinga sögu var rýndur og sagan síðan lokaverkefni hópsins. Sagði Ása einstakan anda hafa ríkt meðal nemenda sinna , sem unnu framúrskarandi vinnu og með elju og eftirfylgni hefði Magnús skilað verkefni sínu hingað. Að ávarpi sínu loknu afhjúpaði Ása listaverkið við lófatak viðstaddra.

 

Að endingu greindi hönnuðurinn Magnús Már frá ferlinu, frá upphafi til raungerðar, öllum þeim þáttum sem ljúka þurfti til að ná hingað sem verkið stendur nú. Fór Magnús fögrum orðum um námskeiðsfélaga sína, kennara og aðra er urðu til að leggja grunn að verkinu. Sagði Magnús að rætt hefði verið um að koma upp vörðum við aðra mikilvæga sögustaði Vopnfirðinga sögu en væri ekki sannfærður um að það væri leiðin – fremur að finna aðra útfærslu og þessi varða yrði hin raunverulegi minnisvarði sögunnar. Að endingu bar hann fram þá ósk að varðan myndi, eins og henni væri ætlað, skapa grundvöll frekari vinnu við söguna og uppbyggingu menningar í sveitarfélaginu –og ferðaþjónustu um leið.

Að lokum er ánægjulegt að greina frá því að Ingólfur Bragi Arason, málari, vill færa sveitarfélaginu tréborð með bekk að gjöf í tengslum við hið nýja listaverk. Er hann ásamt Baldri Hallgrímssyni reiðubúinn til að vinna það verk sem þarf að vinna - koma borðinu á vettvang þegar því hefur verið fundinn staður. Er þökkum sveitarfélagsins hér með komið á framfæri.

 
Tungumál


Skipta um leturstærð


LeitFlýtileiðir