Einherji er 4. deildarmeistari!

15.09 2013 - Sunnudagur

Ungmennafélagið Einherji er meistari 4. deildar í knattspyrnu – til hamingju meistarar með frábæran árangur! Einherji vannn lið Berserkja 2:0 (1:0) í gær og er besta lið 4ðu deildar!

 

 

Leikur Einherja og Bersekja úr Reykjavík var hörkuleikur tveggja vel spilandi liða á prýðisgóðum Sauðárkróksvelli að viðstöddum liðlega 50 fylgismönnum Einherja, er voru allir langt að komnir. Sem fyrr einkenndi leik Einherja samstaða leikmanna en seiglan, baráttan og þolinmæðin er aðdáunarverð í þessu liði. Á 17du mínútu skoraði Sigurður Donys glæsilegt mark eftir mikið einstaklingsframtak en bæði lið fengu færi til marks en færi okkar manna voru betri. Lið Berserkja er skipað stórgóðum knattspyrnumönnum, sem fara vel með boltann og samleikur liðsins á tíðum til fyrirmyndar. Ljóst var – og lá alltaf fyrir – að Einherji léki gegn góðu knattspyrnuliði.

 

Síðari hálfleikur var eins og sá fyrri jafn en Einherji var sterkari aðilinn og það var í samræmi við gang leiksins að liðið skoraði annað mark sitt á 78. mínútu en það gerði Gunnlaugur Bjarnar með því að koma knettinum undir markvörð Berserkja úr þröngu færi, 2:0 og úrslitin mögulega ráðin. Margt getur gerst á 15 mínútum og því hélst spennan fram að lokum leiks en hvílíkur fögnuður sem brast út meðal leikmanna og aðdáenda er flautan gall í leikslok og ljóst var að Ungmennafélagið Einherji hafði unnið til verðlauna, meistaratign 4. deildar og ásamt andstæðingi sínum, Berserkjum, sæti í 3. deild að ári.

 

Á morgun mun birtast myndasyrpa frá úrslitaleiknum en þess ber að geta að Víglundur Páll Einarsson, þjálfari, mun halda áfram – var það ljóst á yndislegu lokahófi félagsins á Hótel Tanga í gærkvöldi og eins að hluti stjórnar mun halda áfram en fyrir lá að stjórnarmenn allir hættu að sumri loknu. Algjört lykilatriði var að tryggja Víglund Pál áfram sem þjálfari. Ánægjulegt er að geta þess að Sigurður Donys, fyrirliði, og sá sem fremstur hefur farið meðal jafningja á sumrinu tók „Allslemmu“ á lokahófinu með því að fá verðlaun sem besti leikmaður að mati leikmanna, besti leikmaður að mati áhorfenda, var markakóngur með 21 mars og loks fékk hann sérstaka viðurkenningu fyrir að hafa skorað 52 mörk fyrir Einherja í 64 leikjum.

 

Bárður Jónasson, oddviti, flutti tölu á hátíðarkvöldinu og upplýsti gesti um að sveitarstjórn hafi, í ljósi afreksins, ákveðið að færa Einherja 300 þúsund að gjöf. Var því fagnað vel og innilega – fékk Bárður faðm Magnúsar Más, formanns Einherja, að launum auk þakklætiskveðju f. h. félagsins. Áður hafði Magnús m. a. rætt það mikla starf sem stjórn félagsins legði á sig, til að halda starfseminni gangandi endurgjaldslaust, en með glæstum árangri sínum og sigrum hefðu laun erfiðisins verið margfalt endurgreidd af meistaraflokksmönnum félagsins.

 

En sum sé meira á morgum með fjölda mynda, myndmálið tekur jú textanum fram – en eins og gefur að skilja var upplifunin í gær einstök.

 

 
Tungumál


Skipta um leturstærð


LeitFlýtileiðir